Ótrúlega ánægð með þetta sumar

Berglind Björg Þorvalsdóttir skoraði tvö í dag.
Berglind Björg Þorvalsdóttir skoraði tvö í dag. Haraldur Jónasson/Hari

Berglind Björg Þorvalsdóttir tryggði sér gullskóinn í Pepsi-deild kvenna er hún skoraði tvö mörk í 3:2-tapi Breiðabliks fyrir Val í lokaumferðinni í dag. Valur komst í 3:0, en Berglind lagaði stöðuna með tveimur mörkum í síðari hálfleik. 

„Við vorum drullulélegar, fyrri hálfleikur var skelfilegur, bæði í vörn og sókn. Mér fannst við koma aðeins betur út í þetta í seinni hálfleik og við náðum að skora tvö mörk en það er pirrandi að ná ekki að vinna. Við vildum enda tímabilið vel."

Hún segir Valskonur einfaldlega hafa verið betri í dag. 

„Við ætluðum að vinna þennan leik, vikan er búin að vera flott hjá okkur og allir voru klárir. en Valur mætti grimmari í þennan leik í dag. Við vorum ekki mættar, þær byrjuðu mikið betur en við og börðust um alla bolta á meðan við vorum allt of seinar í allt."

Breiðablik er tvöfaldur meistari og eins og áður segir, vann Berglind gullskóinn. Hún er að sjálfsögðu ánægð með gott sumar. 

„Maður ætti að horfa á það og ekki að pæla of mikið í þessum leik. Við unnum tvöfalt og maður fékk þennan skó, svo ég er ótrúlega ánægð með þetta sumar. Manni dreymir um þetta, það er geðveikt að ná markmiðunum sínum," sagði Berglind. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert