Selfoss tók sjötta sætið eftir dramatík

Kristín Erna Sigurlásdóttir með boltann í leiknum í dag en …
Kristín Erna Sigurlásdóttir með boltann í leiknum í dag en Barbára Sól Gísladóttir sækir að henni. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Það var ekki mikið í húfi þegar Selfoss tók á móti ÍBV í lokaumferð Pepsideildar kvenna í knattspyrnu í dag. Leikurinn bar þess merki og var tilþrifalítill á löngum köflum. Eyjakonur voru sterkari allan leikinn en tókst ekki að skora. En uppbótartíminn var dramatískur og þar fengu Selfyssingar vítaspyrnu sem Magdalena Reimus skoraði sigurmarkið úr, 1:0.

Leikurinn byrjaði með látum og ÍBV fékk þrjú dauðafæri á fyrstu mínútunni. Selfyssingar stóðu storminn af sér og leikurinn róaðist mikið í kjölfarið. ÍBV réð ferðinni en sóknarleikur þeirra byggðist allur í kringum Cloé Lacasse. Selfossvörnin og Caitlyn Clem, markvörður, náðu hins vegar að stöðva allar sóknir ÍBV og staðan var 0:0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var tíðindalítill og það sem gladdi helst augað var að þjálfarar beggja liða leyfðu ungum leikmönnum, allt niður í 3. flokk, að spreyta sig. Þær stóðu sig vel í leiknum og sýndu að framtíðin er björt á Suðurlandi.

Leikurinn virtist vera að fjara út þegar Selfyssingar fengu vítaspyrnu í uppbótartímanum. Markvörðurinn Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir og Magdalena Reimus stukku saman upp í boltann og dómarinn dæmdi brot á Bryndísi. Eyjamenn voru brjálaðir yfir dómnum, Bryndís fékk gult og Ian Jeffs, þjálfari, rautt eftir leik.

Magdalena var hins vegar ekki að velta þessari dramatík mikið fyrir sér því hún fór sjálf á vítapunktinn og sendi Bryndísi í vitlaust horn. Örugg spyrna og lokatölur 1:0.

Staða liðanna í deildinni breyttist ekkert við þessi úrslit. ÍBV er í 5. sæti með 25 stig og Selfoss í 6. sætinu með 20 stig.

Selfoss 1:0 ÍBV opna loka
90. mín. Birgitta Sól Vilbergsdóttir (ÍBV) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert