Valur sigraði Íslandsmeistarana

Valur vann góðan 3:2-sigur á Breiðabliki í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta á heimavelli sínum í dag. Valskonur komust í 3:0 og var sigurinn heilt yfir verðskuldaður, þrátt fyrir að Breiðablik hafi lagað stöðuna í lokin. 

Valskonur voru mun betri í fyrri hálfleik og fékk Elín Metta Jensen nokkur góð færi á fyrstu mínútunum en henni tókst ekki að skora. Það kom hins vegar ekki að sök því Dóra María Lárusdóttir skoraði fyrsta markið á 20. mínútu. Glæsilegt skot hennar af um 20 metra færi hafnaði í slánni og inn.

Dóra María sá um að leggja upp annað mark Vals. Hún átti fína hornspyrnu á 37. mínútu og Málfríður Erna Sigurðardóttir skallaði boltann í boga og í fjærhornið með glæsibrag og var staðan í hálfleik 2:0. Valskonur bættu við þriðja markinu á 56. mínútu. Fanndís Friðriksdóttir skoraði þá af öryggi eftir að Snonný Lára Þráinsdóttir hafði varið frá Hlín.

Breiðablik lagaði stöðuna á 70. mínútu. Berglind Björg Þorvalsdóttir kláraði þá vel af stuttu færi eftir sendingu frá varamanninum Karlólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Berglind skoraði sitt annað mark á 85. mínútu með góðri afgreiðslu innan teigs en nær komust meistararnir ekki.

Valur 3:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Sandra Sigurðardóttir (Valur) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert