Einstök þrenna hjá Sam Hewson

Sam Hewson skoraði þrennu á Akureyri í dag.
Sam Hewson skoraði þrennu á Akureyri í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir

Sam Hewson, miðjumaður Grindvíkinga, skoraði þrennu fyrir þá gegn KA á Akureyri í Pepsi-deild karla í dag og hún er sú fyrsta sinnar tegundar á þessari öld.

Hewson og Grindvíkingar máttu sætta sig við ósigur þrátt fyrir þrennuna, því KA vann leikinn 4:3.

Það hefur ekki áður gerst á þessari öld í íslensku úrvalsdeildinni að leikmaður í tapliði hafi skorað þrennu. Síðast gerðist það árið 1999 þegar Sigurbjörn Hreiðarsson, núverandi aðstoðarþjálfari Vals, skoraði þrennu fyrir Valsmenn í 5:4 ósigri gegn Víkingi í slag Reykjavíkurliðanna sem fram fór á Laugardalsvellinum 16. ágúst.

Margt var líkt með þeim leik og sigri KA á Grindavík í dag. Víkingar komust í 4:0 í fyrri hálfleik, rétt eins og KA komst í 3:0 snemma leiks á Akureyri, og þeir náðu 5:1 forystu í seinni hálfleik. Sigurbjörn náði þrennunni þegar hann minnkaði muninn í 5:4 á 89. mínútu leiksins. Hann gerði tvö marka sinna úr vítaspyrnum en Hewson eitt í dag.

Þetta er fyrsta þrenna Hewsons í deildinni en hann hefur verið þekktur fyrir flest annað en að skora mörk því enski miðjumaðurinn hafði aðeins gert 5 mörk í 126 leikjum í deildinni fyrir leikinn á Akureyri í dag.

Nokkrar þrennur hafa litið dagsins ljós í jafnteflisleikjum. Síðast gerðist það árið 2010 þegar Baldur Sigurðsson, núverandi fyrirliði Stjörnunnar, gerði öll mörk KR í 3:3 jafnteflisleik gegn Grindavík. Annars höfðu 34 síðustu þrennur í úrvalsdeild karla verið skoraðar af leikmönnum í sigurliði.

Þetta er sjöunda þrennan hjá Grindvíkingi í efstu deild karla. Tómas Ingi Tómasson gerði þá fyrstu árið 1995, Grétar Hjartarson þrjár þær næstu árin 2001 og 2002, Sinisa Valdimar Kekic þá fimmtu árið 2003 og Andri Rúnar Bjarnason þá sjöttu árið 2017.

mbl.is