Einvígið um Evrópusætið

FH vann KR 4:0 í Kaplakrika í byrjun september en …
FH vann KR 4:0 í Kaplakrika í byrjun september en samt er KR með undirtökin hvað markatöluna varðar fyrir lokaumferðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR og FH munu slást um sæti í undankeppni Evrópudeildar UEFA í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á laugardaginn kemur.

KR var með tveggja stiga forskot á FH fyrir leiki dagsins og virtist á góðri leið með að tryggja sér Evrópusætið þegar langt var á þá liðið og KR var 1:0 yfir gegn Fylki en FH hafði fengið á sig jöfnunarmark gegn Val, 1:1. Fylkismenn jöfnuðu hins vegar og Eddi Gomes skoraði sigurmark FH með síðustu spyrnu leiksins.

Þar með eru KR og FH jöfn að stigum fyrir síðustu umferðina, eru með 34 stig, en KR er þó með undirtökin. Markatala KR er 33:23, eða 10 mörk í plús, en FH er með 35:28, eða sjö í plús.

FH sækir Stjörnuna heim og KR-ingar fara í Fossvoginn og leika við Víkinga. Ef bæði liðin vinna þarf FH að vinna sinn leik með þremur mörkum meira en KR-ingar, þ.e, vinna Stjörnuna 4:0 ef KR vinnur Víking 1:0.

Það er því ljóst að nái KR-ingar að vinna Víking þarf mikið að ganga á í Garðabæ til að Vesturbæingar fari ekki í Evrópukeppni á næsta ári.

Valur, Breiðablik og Stjarnan verða hin þrjú liðin sem verða fulltrúar Íslands í Evrópumótunum á næsta keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert