Horfi til baka á fullt af mistökum hjá mér og liðinu

Ólafur Páll Snorrason var þungur á brún eftir niðurstöðu dagsins, …
Ólafur Páll Snorrason var þungur á brún eftir niðurstöðu dagsins, enda Fjölnismenn fallnir niður í 1. deild. mbl.is/Sigfús Gunnar

„Það er hægt að setja marga punkta saman sem verða til þess að við föllum,“ segir Ólafur Páll Snorrason, þjálfari Fjölnis, en liðið féll í dag niður í 1. deild eftir 2:0-tap gegn Breiðabliki í næstsíðustu umferð.

„Það er hundfúlt að lenda í þessu og enn einn leikur eftir. Við ætluðum að búa okkur til spennandi lokaumferð og það er bæði þungt og erfitt að svona skyldi fara í dag,“ segir Ólafur Páll. Fjölnir var fyrir leiki dagsins þremur stigum á eftir Fylki en liðin mætast í lokaumferðinni. Fylkir náði 1:1-jafntefli við KR og er þar með sloppinn. Fjölnir blés til sóknar í seinni hálfleiknum gegn Breiðabliki en hafði ekki erindi sem erfiði gegn skipulagðri vörn gestanna, sem voru 2:0 yfir eftir fyrri hálfleik.

„Við vildum blása til sóknar og sáum að ef við næðum að minnka muninn í 2:1 og KR ynni Fylki þá væri markatalan jöfn hjá okkur og Fylki sem við myndum þá mæta í hreinum úrslitaleik. Svo heyrir maður að Fylkir hafi jafnað gegn KR og þá þurftum við að minnsta kosti tvö mörk, og þá reynir maður allt eins og að setja varnarmann fram. En þetta er ekki leikurinn sem fellir okkur. Það er fullt af augnablikum og atvikum sem maður horfir til baka á og sér mistök hjá bæði mér og liðinu,“ segir Ólafur Páll.

„Það er ekkert eitt sem situr þyngst í manni. Við sem hópur áttum að gera betur. Það er erfitt að segja hvort það sé vegna þess að ég hafi ekki náð nógu vel til hópsins til að stíga upp þegar á móti blés. Það leið of langur tími þar sem að við spiluðum bara illa, og fengum mjög fá stig þar af leiðandi. En þessi niðurstaða er samansafn af fullt af hlutum,“ bætir hann við.

Vill að „rétt ákvörðun“ verði tekin fyrir félagið

Ólafur Páll tók við sem aðalþjálfari Fjölnis fyrir ári en veit hann hvort hann mun stýra liðinu áfram í 1. deild?

„Nei, það hefur ekkert verið pælt í því. Við höfum bara verið með það verkefni að halda sæti liðsins í deildinni og nú er útséð með að sú barátta tapaðist. Þá er hægt að skoða framhaldið.“ Ólafur hefur sjálfur áhuga á að halda áfram starfi sínu:

„Já, já, en það er spurning hvað er réttast að gera, bæði fyrir mig, félagið og leikmenn. Ég hafði trú á því að við gætum gert góða hluti með þetta lið en það tókst ekki og ég ber ábyrgð á því að liðið féll. Auðvitað er áhugi fyrir því [hjá honum, að halda áfram með liðið], en það verður að taka rétta ákvörðun fyrir félagið, hvort sem hún er sú að ég verði áfram eða ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert