Eyjamenn eyðilögðu drauma Stjörnunnar

Halldór Páll Geirsson, markmaður ÍBV, brýtur á Guðjóni Baldvinssyni, framherja …
Halldór Páll Geirsson, markmaður ÍBV, brýtur á Guðjóni Baldvinssyni, framherja Stjörnunnar, innan teigs í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn eyðilögðu drauma Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitilinn 2018 með því að sigra þá með tveimur mörkum gegn einu í Pepsi-deild karla í fótbolta í dag.

Stjarnan á reyndar enn fræðilega möguleika á titlinum en þeir eru afar langsóttir. Stjarnan er með 40 stig, Breiðablik 41 og Valur 43 stig fyrir lokaumferðina.

Staðan var þó lengi vel vænleg hjá Stjörnumönnum. Þeir náðu forystunni á 23. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Halldór Pál Geirsson markvörð ÍBV fyrir að fella Guðjón Baldvinsson. Hilmar Árni Halldórsson skoraði úr spyrnunni, sitt 16. mark í deildinni í ár og það fyrsta í sjö leikjum, og Stjarnan var með 1:0 forystu í hálfleik.

ÍBV jafnaði metin á 62. mínútu. Sindri Snær Magnússon fékk boltann frá Kaj Leo i Bartalsstovu, tók flottan snúning og lagði boltann snyrtilega í hornið fjær, 1:1.

Sex mínútum síðar náði Víðir Þorvarðarson boltanum utan vítateigs og skoraði með frábæru skoti, 2:1.

Rétt á eftir munaði engu að hinn kornungi Eyþór Orri Ómarsson, sem átti þátt í fyrra markinu, gerði þriðja mark ÍBV þegar hann skallaði að marki Stjörnunnar, boltinn fór í stöngina og skoppaði eftir marklínunni.

Með sigrinum er öruggt að ÍBV fellur ekki úr deildinni en Fjölnismenn féllu í dag. Eyjamenn eru komnir með 26 stig og í sjöunda sætinu eftir þennan sigur.

ÍBV 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Daníel Laxdal (Stjarnan) fær gult spjald Níunda spjaldið í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert