Ólafur Kristjánsson fékk hugboð

Ólafur Kristjánsson var afar sáttur með sigur sinna manna gegn …
Ólafur Kristjánsson var afar sáttur með sigur sinna manna gegn Val í dag. mbl.is/Valli

„Valsmennirnir sköpuðu sér ekki mikið í dag. Þeir eru með frábært lið og mér fannst við loka mjög vel á þeirra hættulegustu menn í dag og ég er mjög sáttur með að ná upp góðum leik á móti þeim,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánssón, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins gegn Val í 21. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Hafnarfirðinum í dag.

„Við vorum órólegir á boltann í fyrri hálfleik en áttum samt sem áður skot í stöngina. Við pressuðum þá illa og vorum að fara mikið afturábak í staðinn fyrir að sækja fram völlinn. Í seinni hálfleik pressuðum við þá miklu betur og fundum miklu betri sendingaleiðir. Við spiluðum okkur vel í gegnum pressuna þeirra, vorum duglegir að finna Brand í lappir sem var lykillinn að því að ná yfirhöndinni í leiknum.“

Valsmenn jöfnuðu metin á 83. mínútu eftir varnarmistök Eddi Gomes en Ólafur segir að markið sem Valsmenn skoruðu hafi verið aðeins í takt við sumarið hjá Hafnfirðingum.

„Ég var ekki smeykur eftir að þeir jafna, þótt það hafi vissulega verið algjör óþarfi. Þetta mark sem þeir skora var aðeins í takt við sumarið hjá okkur í Hafnarfirðinum. Patrick Pedersen er frábær framherji og hann hefur skorað mörk í sumar þar sem hann hefur þurft að hafa aðeins meira fyrir hlutunum. Ég var vissulega ósáttur með markið en það tók mig kannski hálfa mínútu að jafna mig á því.“

Í lokahornspyrnu leiksins fór Gunnar Nielsen, markmaður FH, fram í vítateig Valsmanna. Útspilið þótti djarft þar sem KR var að gera jafntefli við Fylkismenn í Vesturbænum en FH og KR eru í harðri baráttu um síðasta Evrópusætið í Pepsi-deild karla.

„Ég fékk hugboð um að bæta við manni inn í teiginn í síðustu hornspyrnunni. Ég hafði það á tilfinningunni, eftir jöfnunarmarkið sem við fengum á okkur, að ef við myndum setja smá þrýsting á þá, þá myndi eitthvað detta fyrir okkur,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert