Ótrúleg dramatík í Krikanum

Jákup Thomsen úr FH heldur boltanum þrátt fyrir að Valsarinn …
Jákup Thomsen úr FH heldur boltanum þrátt fyrir að Valsarinn Guðjón Pétur Lýðsson sæki að honum. mbl.is/Eggert

FH vann ótrúlega dramatískan sigur á Íslandsmeisturum Vals í 21. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag í Hafnarfirðinum en leiknum lauk með 2:1 sigri Hafnfirðinga.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Valsmenn voru meira með boltann á meðan FH-ingar lágu til baka og vörðust aftarlega á vellinum. Valsmönnum gekk illa að opna vörn Hafnfirðinga en hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri og staðan því markalaus í hálfleik.

Síðari hálfleikur fór af stað með miklum látum. Atli Guðnason átti skalla í þverslá á upphafsmínútum seinni hálfleiks, Valsmenn brunuðu í sókn og Patrick Pedersen hitti ekki boltann í ákjósanlegu færi. Í næstu sókn á eftir fékk Jákup Thomsen sendingu inn í teig. Færeyingurinn hélt varnarmönnum Vals vel frá sér og kláraði í þverslána og inn á 57. mínútu.

Það var ekkert sem benti til þess að Valsmenn myndu jafna metin þegar Bjarni Ólafur átti hættulitla fyrirgjöf fyrir markið á 83. mínútu. Eddi Gomes, varnarmaður FH-inga, kingsaði boltann, sem barst til Patrick Pedersen. Pedersen skaut utanfótarskoti utarlega í markteignum sem fór í stöngina og inn og staðan orðin 1:1.

Það var svo Eddie Gomes sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma eftir mikinn darraðardans í teig Valsmanna. Brandur tók hornspyrnu inn í teiginn sem Valsmenn reyndu að skalla frá. Boltinn fór hins vegar upp í loft, Guðmundur Kristjánsson vann knöttinn í loftinu og boltinn datt fyrir Eddi Gomes sem skallaði boltann í netið af stuttu færi og lokatölur því 2:1 fyrir FH í ótrúlegum leik.

FH er áfram í fimmta sæti deildarinnar með 34 stig, jafnmörg stig og KR, sem er í fjórða sætinu þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu en bæði lið eru í harðri baráttu um Evrópusæti. KR sækir Víking Reykjavík heim í lokaumferðinni en FH fer í Garðabæinn og mætir Stjörnunni.

Valsmenn eru áfram á toppi deildarinnar með 43 stig og hafa tveggja stiga forskot á Breiðablik fyrir lokaumferðina. Valsmenn fá sigurlausa Keflvíkinga heim á Hlíðarenda í síðustu umferðinni en Breiðablik fær KA í heimsókn í Kópavoginn.

FH 2:1 Valur opna loka
90. mín. Brandur Olsen (FH) á skot sem er varið Brandur með skot fyrir utan teig en Anton grípur boltann auðveldlega.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert