Valsmenn standa afar vel að vígi

Staða Valsmanna er afar vænleg þrátt fyrir tapið gegn FH …
Staða Valsmanna er afar vænleg þrátt fyrir tapið gegn FH í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsmenn verða Íslandsmeistarar 2018 ef þeir sigra Keflavík á Hlíðarenda í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu næsta laugardag, og að öllum líkindum myndi jafntefli duga þeim til að innbyrða Íslandsmeistaratitilinn. Breiðablik og Stjarnan eiga þó möguleika á titlinum fyrir lokaumferðina.

Valur er með 43 stig eftir 2:1 ósigurinn gegn FH í dag. Breiðablik er með 41 stig eftir 2:0 sigur á Fjölni í Grafarvogi og getur því enn farið upp fyrir Val. Stjarnan er með 40 stig eftir 2:1 tap í Vestmannaeyjum.

Bæði Breiðablik og Stjarnan verða því að treysta á að botnlið Keflvíkinga, sem hefur ekki unnið í 21 leik á tímabilinu, vinni Valsmenn, og Breiðablik á líka von ef Valsmenn gera jafntefli.

Þá er markatalan líka Valsmönnum í hag en þeir eru með 23 mörk í plús, Breiðablik 18 og Stjarnan 20.

Breiðablik þarf því að vinna sex marka sigur á KA á Kópavogsvelli ef Valur gerir jafntefli við Keflavík. Ef Valsmenn tapa verða Blikar hins vegar Íslandsmeistarar með sigri á KA.

Möguleikar Stjörnunnar á Íslandsmeistaratitlinum eru orðnir frekar langsóttir en þeir felast í því að Valur tapi fyrir Keflavík, Breiðablik vinni ekki KA og Stjarnan vinni tveggja marka sigur á FH, nema sigur Keflvíkinga gegn Val verði með meira en einu marki.

Leikirnir í lokaumferðinni fara allir fram á laugardaginn kemur, 29. september, klukkan 14:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert