Fámennur en samheldinn hópur Þórs/KA

Sandra María Jessen og, Sara Björk Gunnarsdóttir eigast við í …
Sandra María Jessen og, Sara Björk Gunnarsdóttir eigast við í fyrri leiknum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu æfði í dag í Þýskalandi þar sem liðið undirbýr sig fyrir síðari viðureignina gegn Söru Björk Gunnarsdóttur og stórliði Wolfsburg í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Wolfsburg vann fyrri leikinn á Þórsvelli 1:0 en síðari leikurinn fer fram ytra á miðvikudag. Þór/KA hélt utan eftir lokaumferð Pepsi-deildar kvenna á laugardag og æfði í fyrsta sinn formlega ytra í dag. Síðdegis á morgun æfir liðið svo á keppnisvellinum hjá Wolfsburg.

Það eru stór skörð í liði Þórs/KA, en eins og áður hefur komið fram þá eru mexíkósku landsliðskonurnar Stephany Mayor, Bianca Sierra og Ariana Calderon fjarri góðu gamni. Mexíkóska knattspyrnusambandið krafðist þess að fá leikmennina til sín til undirbúnings og Þór/KA gat ekki komið í veg fyrir það. Það er því fámennur en samheldinn hópur að norðan sem undirbýr sig fyrir stórleikinn gegn Wolfsburg, eins og liðið orðar það í færslu á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert