Wolfsburg allt of stór biti fyrir Þór/KA

Sara Björk Gunnarsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir í fyrri leiknum …
Sara Björk Gunnarsdóttir og Lillý Rut Hlynsdóttir í fyrri leiknum á Akureyri. mbl.is/Þórir Tryggvason

Þór/KA féll í dag úr leik gegn tvöföldum Þýskalandsmeisturum Wolfsburg, með Söru Björk Gunnarsdóttur innanborðs, í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Wolfsburg vann fyrri leik liðanna á Akureyri 1:0 og í dag var um algjöra einstefnu að ræða að marki Þórs/KA. Lokatölur í Wolfsburg urðu þó aðeins 2:0 og silfurliðið frá síðustu leiktíð í Meistaradeildinni vann því einvígið samtals 3:0.

Wolfsburg tók strax algjöra stjórn á leiknum í dag og hafði skapað sér nokkur færi þegar danski markahrókurinn Pernille Harder kom liðinu yfir á 28. mínútu, með skalla af stuttu færi. Wolfsburg hafði áfram algjöra yfirburði í seinni hálfleik, svo mikla að Þór/KA átti ekki skottilraun allan leikinn. Ella McLeod skoraði seinna mark Wolfsburg um miðjan seinni hálfleik, þegar hún fylgdi á eftir skoti Zsanett Jakabfi.

Þór/KA var án þriggja mexíkóskra landsliðskvenna sinna en þær voru kallaðar til undirbúnings fyrir komandi Norður- og Mið-Ameríkumót sem hefst 4. október. Því voru aðeins þrír leikmenn á varamannabekk Þórs/KA, þar af einn varamarkvörður, en allir 14 leikmenn hópsins komu við sögu í leiknum í dag.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu sem sjá má hér að neðan.

Wolfsburg 2:0 Þór/KA opna loka
90. mín. Zsanett Jakabfi (Wolfsburg) á skot sem er varið Úff. Skot af markteigslínunni en frábærlega varið hjá Bukovec með annarri hendi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert