Ef ég vissi það þá væri ég helvíti ríkur

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Dave Lee

Þrátt fyrir 1:0 tap á heimavelli gegn FH-ingum í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag geta Rúnar Páll Sigmundsson og strákarnir hans í Stjörnunni verið sáttir við tímabilið.

Stjarnan vann á tímabilinu bikarmeistaratitilinn í fyrsta sinn og endaði í þriðja sæti en fyrir lokaumferðina í dag eygði Stjarnan afar veika von um að landa Íslandsmeistaratitlinum í annað sinn í sögu félagins.

„Það var fúlt að enda mótið með þessum hætti. Eitt stig úr síðustu þremur leikjunum. Við gerðum jafntefli við KA á heimavelli og fórum svo illa að ráði okkar í leiknum á móti ÍBV í Eyjum. Með því tapi fóru vonir okkar út um þúfur. Við vorum mjög þungir eftir tapleikinn á móti ÍBV og síðustu dagar hafa verið hálf skrítnir eftir að hafa verið hátt uppi eftir bikarmeistaratitilinn. Ég veit ekkert af hverju við misstum dampinn og hvað olli því. Ef ég vissi það þá væri ég helvíti ríkur maður,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við mbl.is eftir leikinn við FH í dag.

„Við vissum það fyrir leikinn í dag að möguleikarnir á titlinum voru úr sögunni. Valsmenn eru með það öflugt lið og ég vil nota þetta tækifæri til að óska þeim til hamingju. Við veittum þeim harða keppni. Við settum okkur það markmið að vera með í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og við vorum það fram undir lokin.

Við settum okkur það markmið líka að vinna einn af af þessum stóru titlum og það tókst og að komast áfram í Evrópukeppninni sem líka tókst. Heilt yfir er ég ánægður með spilamennsku minna manna. Við erum búnir að vera í toppbaráttunni undanfarin ár. Við munu halda þeim mannskap sem við erum með í dag og ætlum að bæta í hann,“ sagði Rúnar Páll.

Verður þú áfram þjálfari liðsins?

„Ég er alla vega með samning út næsta tímabil og sjáum við til hvernig það þróast. Það er ekki búið að bjóða mér nýjan samning en það kemur vonandi í ljós hvort svo verði. Maður veit það ekki,“ sagði Rúnar og hló.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert