Fylkir niðurlægði Fjölni í Árbænum

Fylkir tók fallna Fjölnismenn í kennslustund á Flórídana-vellinum í Árbænum í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag en leiknum lauk með 7:0-sigri Árbæinga í ótrúlegum leik.

Daði Ólafsson kom Árbæingum yfir á 27. mínútu eftir mistök Þórðar Ingasonar í marki Fjölnis. Þórður missti boltann klaufalega fyrir lappir Daða sem var einn gegn opnu marki og staðan orðin 1:0. Albert Brynjar Ingason tvöfaldaði forystu Fylkismanna eftir frábæran undirbúning Hákons Inga og Emils Ásmundssonar á 38. mínútu. Hákon Ingi skoraði þriðja mark Árbæinga af stuttu færi á 41. mínútu eftir slakan varnarleik Fjölnismanna og staðan því 3:0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði ekki byrlega fyrir Fjölnismenn en Guðmundur Karl Guðmundsson lét reka sig út af á 52. mínútu fyrir tuð og Grafarvogsbúar því einum manni færri það sem eftir lifði leiks. Albert Brynjar Ingason bætti við fjórða marki Fylkismanna á 66. mínútu eftir hornspyrnu og Jonathan Glenn skoraði fimmta mark Fylkis á 74. mínútu eftir klaufaleg mistök Þórðar í markinu.

Glenn var svo aftur á ferðinni á 81. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi úr teignum eftir laglegan undirbúning Alberts Brynjars og títtnefndur Albert fullkomnaði þrennuna, tveimur mínútum síðar, þegar hann komst inn í sendingu Fjölnismanna tilbaka. Þórður kom út úr markinu, missti af boltanum og Albert kláraði úr teignum í autt markið.

Lokatölur í Árbænum því 7:0 fyrir Fylkismenn sem ljúka keppni í áttunda sæti deildarinnar með 26 stig en Fjölnismenn voru fallnir fyrir lokaumferðina og ljúka þeir keppni í ellefta sæti deildarinnar með 19 stig.

Fylkir 7:0 Fjölnir opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 7:0-sigri Fylkismanna. Ótrúleg úrslit.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert