Loksins brast stíflan

Albert Brynjar Ingason átti stórleik í gær og skoraði þrennu.
Albert Brynjar Ingason átti stórleik í gær og skoraði þrennu. mbl.is/Valli

„Fjölnismenn byrjuðu leikinn vel og við vorum í basli með þá fyrstu tuttugu mínúturnar en eftir að við skoruðum fyrsta markið var þetta aldrei spurning,“ sagði Albert Brynjar Ingason, framherji Fylkis, í samtali við mbl.is efir 7:0-sigur liðsins gegn Fjölni í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í gær en Albert skoraði þrennu í leiknum og átti stórleik.

„Þeir voru fallnir fyrir leikinn og þeir brotnuðu alveg við að fá þetta fyrsta mark á sig og við gengum á lagið og við vorum miklu betri, heilt yfir. Það sem hefur einna helst verið að klikka hjá okkur í sumar er að nýta þessi færi sem við höfum verið að fá, snemma í leikjum. Við höfum skapað okkur helling í sumar en það hefur aðeins vantað upp á að klára þau. Að sama skapi höfum við átt fullt af fínum leikjum í sumar en það kom tímabil þar sem við vorum að fá á okkur alltof mikið af mörkum en í síðustu sjö leikjum höfum við fengið fullt af stigum og það hefur verið góður taktur í þessu hjá okkur upp á síðkastið.“

Ólafur Ingi Skúlason hefur verið frábær fyrir Fylkismenn, síðan hann snéri aftur heim úr atvinnumennsku, og Albert er afar sáttur með heimkomu hans til félagsins.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Albert Brynjar ingason í baráttunni á …
Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Albert Brynjar ingason í baráttunni á Kaplakrikavelli í sumar. mbl.is/Valli

Kom inn með ákveðna fagmennsku

„Við vissum það að hann væri ekki þessi leikmaður sem væri að fara sóla upp allan völlinn og skora helling af mörkum fyrir okkur. Hins vegar þá kemur hann inn með ákveðna fagmennsku inn í félagið. Hann er Fylkismaður í húð og hár og það var frábært fyrir alla hjá félaginu að fá hann aftur. Það er alltaf stemning í kringum hann og hann hefur hjálpað okkur að þjappa hópnum saman. Hann er mikill leiðtogi, innan sem utan vallar, og það hjálpaði okkur mikið að fá hann inn á þessum tímapunkti.“

Alberti hefur ekki gengið vel að skora í sumar en hann var með 2 mörk í deildinni, þegar kemur að leiknum í gær. Hann skoraði þrennu og átti frábæran leik.

„Það var frábært að setja þrennu í dag. Ég byrjaði tímabilið út á kanti en hef verið að spila sem fremsti maður í síðustu sjö leikjum. Ég hef verið að koma mér í færi og ég hef verið duglegur að leggja upp mörk en það sem hefur vantað er að nýta færin. Ég vissi svo sem að ég myndi alltaf fá mín færi, en á meðan við vorum að vinna leiki, þá var mér nokkuð sama hvort ég væri að skora eða ekki. Þegar maður er kaldur þá þarf maður stundum eitt mark til að brjóta ísinn og það er nákvæmlega það sem gerðist. Stíflan brast hjá mér og ég vildi óska þess að það væri fleiri leikir eftir í deildinni,“ sagði Albert Brynjar í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert