Var skíthræddur við Óla Kristjáns

Víðir Sigurðsson, yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins og mbl.is, afhendir Gísla Eyjólfssyni …
Víðir Sigurðsson, yfirmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins og mbl.is, afhendir Gísla Eyjólfssyni verðlaunagripinn sem Gísli fær sem efsti leikmaður í M-einkunnagjöf Morgunblaðsins í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Eins og lesa má um í ítarlegri samantekt Morgunblaðsins um Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag er Blikinn Gísli Eyjólfsson sá leikmaður sem stóð upp úr á tímabilinu og varð efstur í M-einkunnagjöfinni.

Viðtal við Gísla má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag en þessi 24 ára miðjumaður hefur átt tvær mjög góðar leiktíðir í Pepsi-deildinni og gæti vel verið á leið í atvinnumennsku í vetur. Þegar hann var yngri munaði hins vegar minnstu að hann hætti hreinlega í fótboltanum:

„Þegar ég var á eldra ári í 3. flokki var hnéð mitt ónýtt og ég spilaði ekkert það ár. Ég var í MK þá og þar var alltaf hamborgari og franskar í boði í hádeginu. Maður var bara í einhverju sukki þarna. Svo byrjaði maður aftur í 2. flokki, af því að strákarnir voru enn þá þarna, bara til að leika sér eitthvað, og þá spilaði ég með B1-liðinu og A2. Það gekk allt í lagi, og ég komst einu sinni á bekkinn hjá A1-liðinu. Andri Yeoman var þar í liðinu og það var bara þvílíka vitleysan að ætla að fara að spila með þeim gæja, hann var svo góður.  Síðan fór þetta bara stigvaxandi hjá mér,“ segir Gísli.

Eftir að hafa farið að láni til 1. deildarliðs Hauka og leikið þar undir stjórn Íslandsmeistarans Sigurbjörns Hreiðarssonar sumarið 2014 lék Gísli sína fyrstu leiki með meistaraflokki Breiðabliks í lok sumars 2015, þá 21 árs gamall, eftir að hafa jafnað sig af bakmeiðslum.

„Það var þó mjög tæpt að maður fengi samning þegar maður kom fyrst í meistaraflokkinn og það stóð svo alveg tæpt að ég nennti þessu hreinlega,“ segir Gísli sem var farinn að mæta á æfingar hjá meistaraflokki árið 2013 þegar Ólafur Kristjánsson, núverandi þjálfari FH, var enn þjálfari Breiðabliks. 

„Óli Kristjáns var þjálfari, og það er mesti herskóli sem ég hef lent í. Maður lærði mikið þarna, það var svo mikil alvara í þessu hjá honum, og ef maður mætti einni mínútu fyrir æfingu með óreimaða skó þá var manni hótað að þurfa að hlaupa alla æfinguna án þess að fá að snerta boltann. Ég var eiginlega skíthræddur við hann. Allur dagurinn fór í að undirbúa mig fyrir æfinguna. Það hefur örugglega virkað helvíti vel. Upp frá þessu fór maður af fullum krafti í þetta,“ segir Gísli hress.

Ítarlega samantekt um frammistöðu leikmanna í Pepsi-deild karla 2018 má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Gísli Eyjólfsson mundar skotfótinn í leik með Breiðabliki í sumar.
Gísli Eyjólfsson mundar skotfótinn í leik með Breiðabliki í sumar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert