Jón Dagur og Albert fá tækifæri

Jón Dagur Þorsteinsson gæti leikið sinn fyrsta landsleik.
Jón Dagur Þorsteinsson gæti leikið sinn fyrsta landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erik Hamrén landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu og Freyr Alexandersson aðstoðarþjálfari opinberuðu í dag landsliðshópinn sem mætir heimsmeisturum Frakka í vináttulandsleik í Guingamp á fimmtudaginn kemur og Sviss  heima í Þjóðadeildinni fjórum dögum síðar.

Albert Guðmundsson og Jón Dagur Þorsteinsson fá tækifæri með liðinu en þeir léku með U21 árs landsliðinu í síðasta verkefni og Jón Dagur, sem leikur með Vendsyssel í Danmörku sem lánsmaður frá enska liðinu Fulham, er í landsliðshópnum í fyrsta skipti. Markmaðurinn Ögmundur Kristinsson er svo kominn aftur í hópinn á kostnað Frederik Schram. 

Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson snúa aftur í hópinn eftir meiðsli, en Jón Daði Böðvarsson og Aron Einar Gunnarsson eru ekki búnir að jafna sig af meiðslum og eru ekki með að þessu sinni. Jón Dagur er sá eini í hópnum sem ekki enn hefur leikið landsleik.

Þá eru Björn Bergmann Sigurðarson, Theódór Elmar Bjarnason og Guðmundur Þórarinsson ekki í hópnum en þeir voru allir í síðustu verkefnum liðsins í september.

Hópurinn er þannig skipaður:

Markverðir:
54 Hannes Þór Halldórsson, Qarabag
15 Ögmundur Kristinsson, Larissa
  3 Rúnar Alex Rúnarsson, Dijon

Varnarmenn:
84 Birkir Már Sævarsson, Val
82 Ragnar Sigurðsson, Rostov
69 Kári Árnason, Genclerbirligi
60 Ari Freyr Skúlason, Lokeren
24 Sverrir Ingi Ingason, Rostov
20 Hörður Björgvin Magnússon, CSKA Moskva
13 Jón Guðni Fjóluson, Krasnodar
10 Hólmar Örn Eyjólfsson, Levski Sofia

Miðjumenn:
72 Birkir Bjarnason, Aston Villa
69 Jóhann Berg Guðmundsson, Burnley
67 Emil Hallfreðsson, Frosinone
62 Gylfi Þór Sigurðsson, Everton
50 Rúrik Gíslason, Sandhausen
21 Arnór Ingvi Traustason, Malmö
17 Rúnar Már Sigurjónsson, Grasshoppers
  8 Guðlaugur Victor Pálsson, Zürich

Sóknarmenn:
50 Alfreð Finnbogason, Augsburg
45 Kolbeinn Sigþórsson, Nantes
19 Viðar Örn Kjartansson, Rostov
  6 Albert Guðmundsson, AZ Alkmaar
  0 Jón Dagur Þorsteinsson, Vendsyssel

Landsliðshópurinn í heild sinni.
Landsliðshópurinn í heild sinni. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is

Bloggað um fréttina