Hefur ekki haft mikil áhrif á mig

„Í mínum huga hef ég bara ráðið nokkuð vel við þetta,“ segir Birkir Már Sævarsson, Íslandsmeistari í knattspyrnu, um stöðu sína eftir að hafa hætt í atvinnumennsku og nú leikið heilt tímabil á Íslandi í fyrsta sinn í rúman áratug.

Mbl.is ræddi við Birki fyrir aðra landsliðsæfingu Íslands í Saint-Brieuc í Frakklandi í dag. Þessi mikli Valsari, sem verður 34 ára gamall í næsta mánuði, segir það ekki hafa breytt sér sem leikmanni að snúa heim í íslensku úrvalsdeildina og að hann finni engan mun á sér á landsliðsæfingum nú miðað við áður:

„Nei, í rauninni ekki. Deildin heima er slakari en þær sem ég hef spilað í í Skandinavíu en liðið sjálft er alveg á pari við þau sem ég hef spilað með úti. Þess vegna held ég að hvað fótboltann varði þá hafi þetta ekki haft mikil áhrif á mig, nema hvað að Valsliðið heldur boltanum meira en ég er vanur, svo maður er búinn að fá að vera meira með boltann,“ segir Birkir.

Fram undan er landsleikur gegn ríkjandi heimsmeisturum Frakka sem er ný áskorun fyrir íslenska landsliðið, þó að vissulega sé um vináttulandsleik að ræða. Liðin mætast á fimmtudag og svo er leikur við Sviss í Þjóðadeildinni á mánudag.

„Það er auðvitað frábært að fá að spila á móti bestu liðum í heimi. Það er það sem við viljum og við hlökkum bara til,“ segir Birkir, og á erfitt með að nefna eitthvað sérstakt sem heillar hann við franska liðið: „Það er bara allt. Þetta er frábært lið með frábæra leikmenn í öllum stöðum og í öllum sætum á bekknum. Þetta er geggjað lið.“

Nánar er rætt við Birki í meðfylgjandi myndskeiði.

Birkir Már Sævarsson á landsliðsæfingu.
Birkir Már Sævarsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Kristinn Magnúss.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert