„Skil ekki alveg þessa umræðu“

„Ég er ánægður með það sem ég hef verið að gera undanfarið og vonandi get ég komið með það inn í landsliðið,“ segir Jóhann Berg Guðmundsson sem er mættur aftur í landsliðið í knattspyrnu eftir að hafa misst af síðustu tveimur leikjum vegna minni háttar meiðsla.

Jóhann ræddi við mbl.is í Saint-Brieuc í dag en þar hefur íslenska landsliðið æft síðustu tvo daga fyrir vináttulandsleik við heimsmeistara Frakklands sem fram fer í Guingamp á fimmtudag, og leik við Sviss í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli á mánudag. Jóhann var ekki með í fyrstu leikjunum undir stjórn Erik Hamrén í síðasta mánuði og þurfti að fylgjast með félögum sínum tapa 6:0 fyrir Sviss og 3:0 fyrir Belgíu.

„Það var gríðarlega svekkjandi að missa af þessum tveimur leikjum og ekki hjálpaði til hvernig úrslitin voru. Auðvitað vill maður vera með félögum sínum og reyna að hjálpa þeim. Við þurfum að koma okkur í gang og það byrjar með látum á móti Frakklandi, og svo er það heimaleikur gegn Sviss þar sem ég tel að við verðum að rífa okkur aðeins í gang eftir fyrri leikinn gegn þeim. Það er enginn betri leikur fyrir okkur en að mæta þeim, og geta hefnt fyrir ófarirnar í útileiknum,“ segir Jóhann.

Síðustu misseri hefur jafnan selst strax upp á heimaleiki Íslands en miðasala á leik liðsins við Sviss á mánudag hefur gengið mun hægar. Miðað við það og umræðu á samfélagsmiðlum virðist trú íslensku þjóðarinnar á landsliðinu hafa minnkað við úrslitin í síðasta mánuði, en Jóhann gefur lítið fyrir það.

„Ég skil nú ekki alveg þessa umræðu. Fyrir tveimur leikjum síðan vorum við á heimsmeistaramótinu í fótbolta – á stærsta sviðinu. Vissulega komumst við ekki upp úr riðlinum þar en vorum þó nokkuð nálægt því. Svo koma þjálfaraskipti og þessi skellur á móti Sviss, og tap gegn Belgíu sem er efst á heimslista. En ég veit ekki af hverju fólk ætti ekki að koma og sjá okkur gegn sterku liði Sviss, því við viljum klárlega hefna fyrir fyrri leikinn. Ég á von á að völlurinn verði fullur á mánudaginn. Liðið er byggt á sömu leikmönnum og voru á HM og hafa gert það sem við höfum gert síðustu ár, og ég sé enga ástæðu til þess að við förum í einhverja lægð núna.“

Íslandi hefur reyndar þrátt fyrir alla velgengnina síðustu ár ekki gengið neitt sérstaklega í vináttulandsleikjum, og skiptar skoðanir eru um hvort Þjóðadeildin sem nú er keppt í sé mikið meira en vináttulandsleikir. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur til að mynda lýst henni sem tilgangslausri en hvað finnst Jóhanni?

„Mér finnst þetta allt í lagi. Við værum annars að spila æfingaleiki en það er meira undir í Þjóðadeildinni. Fyrir okkur var auðvitað alltaf að fara að vera erfitt að vera í riðli með Belgíu og Sviss. En undankeppni EM er það mikilvægasta. Við viljum komast á EM, það er okkar markmið, og við vinnum í því í þessum leikjum,“ segir Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert