„Stórfurðuleg staða“

Kolbeinn Sigþórsson í leiknum gegn Belgum á dögunum.
Kolbeinn Sigþórsson í leiknum gegn Belgum á dögunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fer ekkert í grafgötur með það að þetta er ekki skemmtileg staða að vera í, og ég skil hana ekki einu sinni sjálfur,“ segir Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í knattspyrnu.

Staða hans hjá franska félaginu Nantes virðist aðeins verða erfiðari með hverri vikunni, forseti félagsins hefur bannað honum að fá svo mikið sem að æfa með liðinu, hvað þá að spila með því, og það þrátt fyrir að Nantes gangi allt í óhag og sé í fallsæti í deildinni.

Kolbeinn er þrátt fyrir þetta mættur hingað til Saint-Brieuc með íslenska landsliðinu, eftir að hafa óvænt verið valinn í hópinn fyrir fyrstu tvo leikina undir stjórn Erik Hamrén í síðasta mánuði.

„Það er náttúrulega frábært fyrir mig að vera valinn í þennan hóp miðað við hvernig staðan hjá mér er. Mér er mikið traust sýnt og þetta er gott tækifæri fyrir mig til að sýna að ég get ennþá skorað mörk. Það gefur mér mikið að fá sénsinn hérna, og mun einnig hjálpa til við að finna nýtt félag,“ segir Kolbeinn. Hann segir ekkert koma til með að breytast hjá sér í Nantes þó að félagið hafi verið að ráða nýjan þjálfara, Vahid Halilhodzic.

„Ég geri mér alla vega engar vonir um það. Þetta hefur allt saman snúist um það að forsetinn vill hvorki að ég spili né æfi með liðinu. Það að nýr þjálfari komi breytir engu hjá mér, nema að forsetinn breyti sinni skoðun. Ég þarf bara að bíða, og sjá hvort ég hafi ekki rétt til að æfa að minnsta kosti með liðinu,“ segir Kolbeinn, en nú er nefnilega svo komið að hann má ekki einu sinni æfa með liðsfélögum sínum.

Sjá allt viðtalið við Kolbein í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert