Ásmundur ráðinn þjálfari Fjölnis

Ásmundur Arnarsson er mættur aftur í Grafarvoginn.
Ásmundur Arnarsson er mættur aftur í Grafarvoginn. mbl.is/Eggert

Ásmundur Arnarsson hefur verið ráðinn þjálfari Fjölnis í 1. deild karla í knattspyrnu en þetta staðfesti félagið á blaðamannafundi í Egilshöllinni í dag. Ásmundur tekur við liðinu af Ólafi Páli Snorrasyni sem hætti með liðið á dögunum eftir að liðið féll úr Pepsi-deildinni. Gunnar Már Guðmundsson og Gunnar Sigurðsson verða honum til aðstoðar.

Ásmundur þekkir vel til í Grafarvoginum en hann stýrði liðinu við góðan orðstír á árunum 2005 til 2011 og kom hann liðinu meðal annars tvívegis í bikarúrslit, ásamt því að koma liðinu tvívegis í efstu deild. Ásmundur var þjálfari Augnabliks í 2. deild kvenna í sumar en hann kom liðinu upp í 1. deildina á sínu fyrsta ári með liðið.

Þá var hann einnig þjálfari 2. og 3. flokks kvenna hjá Breiðabliki en hann lét af störfum í Kópavoginum í dag. Ásmundur er afar reynslumikill þjálfari en hann hefur stýrt liðum á borð við Völsung, Fjölni, Fylki, ÍBV og Fram á ferli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert