Finnst kominn tími á breytingar

Björn Berg Bryde í baráttu við Blikann Gísla Eyjólfsson í …
Björn Berg Bryde í baráttu við Blikann Gísla Eyjólfsson í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst bara kominn tími á breytingar. Ég er búinn að taka sjö tímabil í Grindavík og mér finnst ég þurfa á breytingu að halda,“ sagði Björn Berg Bryde, miðvörðurinn stóri og stæðilegi sem gerði í dag þriggja ára samning við bikarmeistara Stjörnunnar.

„Stjarnan er eitt af bestu liðum landsins og Evrópukeppnin sem liðið tekur þátt í á næstu leiktíð heillaði mín sem og titilbarátta. Þetta gekk hratt fyrir sig þegar þetta kom upp. Það voru nokkrir spennandi kostir í stöðunni og ég verð að segja að það kom mér á óvart hversu mörg lið sýndu mér áhuga,“ sagði Björg Berg í samtali við mbl.is.

Björn Berg Bryde.
Björn Berg Bryde. Ljósmynd/Stjarnan

Björn Berg er uppalinn FH-ingur en í samtali við mbl.is sagðist hann ekkert hafa heyrt frá sínu gamla félagi. Björn er búinn að vera í stóru hlutverki með Grindavíkurliðinu undanfarin ár en samningur hans við Suðurnesjaliðið rann út eftir tímabilið. Hann lék 21 af 22 leikjum Suðurnesjaliðsins í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði í þeim tvö mörk.

„Upp á ferilinn minn að gera tel ég það gott að breyta til, fá nýja áskorun og meiri samkeppni og stefnan er að bæta sig sem knattspyrnumaður. Stjarnan er flott félag. Ég er búinn að taka rúnt um svæðið og ræða við menn frá félaginu og það er allt upp á tíu. Ég er mjög spenntur fyrir þessu,“ sagði Björn Berg við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert