„2-3 vörslur sem hjálpa liðinu helling“

Rúnar Alex Rúnarsson ver frá Ousmane Dembélé í kvöld.
Rúnar Alex Rúnarsson ver frá Ousmane Dembélé í kvöld. AFP

„Fyrir fram hefði maður alltaf tekið 2:2-jafntefli svo maður er ánægður með þetta,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson, markmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, eftir 2:2-jafntefli Íslands gegn Frökkum ytra í vináttuleik í kvöld. 

„Við verjumst vel og þeir eru ekki að skapa mikið af færum fyrr en undir lokin þegar þeir voru búnir að skipta inn kanónum. Það var margt jákvætt í þessu."

Rúnar var ánægður með eigin frammistöðu í leiknum, en hann lék fyrri hálfleikinn. Hann rifjaði svo upp vörslu sem hann átti, einn gegn Ousmane Dembélé. 

„Ég er ánægður með það sem ég gerði í þessum leik. Ég var með fínar spyrnur og 2-3 vörslur sem hjálpa liðinu helling og ég get verið sáttur með mitt. Það var ekkert annað í boði fyrir miðjumanninn en að senda á Dembélé og ég var búinn að lesa það, svo ég ákvað að veðja á það að leggja snemma af stað, svo ég var kominn alveg ofan í hann þegar hann átti skotið og það hjálpaði.“

Rúnar var tekinn af velli í hálfleik vegna smávægilegra bakmeiðsla. Hann vonast til að vera klár í leikinn gegn Sviss í Þjóðadeildinni næstkomandi mánudag. 

„Ég fékk smá tak í bakið og átti erfitt með að snúa upp á líkamann minn og við ákváðum að ég myndi bara spila fyrri hálfleik og það væri skynsamlegra. Við erum með frábæra sjúkraþjálfara og þetta er ekkert stórt. Ef ég fæ leyfi til að spila þá geri ég allt sem ég get til að spila,“ sagði markmaðurinn ungi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert