Á foreldra sem þekkja þetta allt

Jón Dagur Þorsteinsson á ferðinni í leik með U21-landsliðinu en …
Jón Dagur Þorsteinsson á ferðinni í leik með U21-landsliðinu en hann lék afar vel með liðinu í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnúss.

Hinn 19 ára gamli kantmaður Jón Dagur Þorsteinsson gæti mögulega þreytt frumraun sína með A-landsliði Íslands í knattspyrnu gegn sjálfum heimsmeisturum Frakka í vináttulandsleiknum í Guingamp í kvöld.

Jón Dagur hefur leikið vel með U21-landsliði Íslands sem og Vendsyssel í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem hann er lánsmaður frá enska úrvalsdeildarfélaginu Fulham, og vann sér inn sæti í A-landsliðinu í fyrsta sinn.

„Ég sá kannski smámöguleika á því að koma inn út af meiðslum í hópnum og öðru, en þetta var samt óvænt,“ sagði Jón Dagur við Morgunblaðið í Frakklandi í vikunni, eftir eina af sínum fyrstu landsliðsæfingum. „Ef maður er búinn að standa sig vel þá fær maður frekar tækifæri en þetta kom kannski aðeins fyrr en ég bjóst við. Það er bara mjög gaman að þetta gerist núna,“ sagði Jón Dagur.

Svolítið stressaður yfir eldamennskunni

Óhætt er að segja að Jón Dagur sé af miklum íþróttaættum. Móðir Jóns Dags er Hafdís Guðjónsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handbolta, og amma hans þar með Sigríður Sigurðardóttir sem fyrst kvenna var kjörin íþróttamaður ársins árið 1964. Pabbi Jóns Dags er Þorsteinn Halldórsson, þjálfari tvöfaldra meistara Breiðabliks í fótbolta kvenna. Valgerður Ýr, systir Jóns Dags, leikur handbolta með HK.

„Þeim finnst þetta auðvitað bara spennandi eins og öðrum [að maður sé kominn í A-landsliðshóp]. Maður talar við þau um þetta allt og það er alltaf hægt að finna stuðning frá þeim. Þau hafa bæði verið í þessu sjálf, þekkja þetta og hafa reynslu sem maður getur nýtt sér,“ sagði Jón Dagur, sem fór 16 ára gamall frá HK til Fulham fyrir þremur árum.

„Ég flutti þá inn til enskrar fjölskyldu en mamma og pabbi hafa alltaf verið dugleg að heimsækja mig. Það er núna fyrst sem ég er að fara að byrja að búa einn. Ég bý samt enn þá á hóteli núna þannig að „partýið“ er ekki byrjað. Maður er kannski smástressaður fyrir því að byrja að elda og eitthvað svona, en ég hef bara gaman af því að læra á það allt,“ sagði táningurinn og brosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert