Gott að koma til baka eftir þessa hörmung

Birkir Már Sævarsson sækir að Antoine Griezmann í kvöld.
Birkir Már Sævarsson sækir að Antoine Griezmann í kvöld. AFP

„Þetta var mjög fín frammistaða og það var svekkjandi að klára þetta ekki með sigri. Fyrir leik hefðum við tekið jafntefli á útivelli á móti Frakklandi,“ sagði bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafnteflið við Frakka í vináttuleik ytra í kvöld. „Það er bæði gaman og erfitt að spila á móti svona liðum og það var gott að koma til baka eftir þessa hörmung í síðasta landsleikjahléi,“ bætti hann við. 

Birkir spilaði í vinstri bakverði í kvöld, í stað þess hægri, eins og hann eru töluvert vanari. 

„Ef mér er sagt að spila vinstri bakvörð, þá er það ekkert mál, þá spila ég bara vinstri bakvörð. Í vörninni er þetta nánast það sama en í sókninni er þetta aðeins erfiðara; maður snýr vitlaust og það er auðveldara að loka á mann, en mér fannst þetta ganga ágætlega.“

Birkir fór af velli undir lokin vegna meiðsla sem hafa verið að angra hann síðustu vikur. 

„Þetta er búið að vera að plaga mig lengi og ég stífnaði aftur upp, eins og er búið að gerast síðustu 2-3 vikurnar. Ég veit ekki alveg stöðuna á þessu, en það er eins og þetta sé ekki alveg í lagi. Ég var hættur að geta hlaupið. Við þurfum að taka stöðuna á morgun og sjá hvernig þetta verður,“ sagði Birkir Már Sævarsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert