Hef verið klaufi en þarf að fá að gera mistök

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er kannski mér að kenna að ég sé ekki búinn að fá fleiri tækifæri,“ segir markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson sem farinn er að banka fastar á dyrnar í von um sæti í byrjunarliði íslenska knattspyrnulandsliðsins í alvöru mótsleik.

Rúnar Alex hefur aðeins leikið þrjá A-landsleiki, allt vináttulandsleiki og þann fyrsta í nóvember í fyrra. Þessi 23 ára gamli KR-ingur er hins vegar eflaust búinn að styrkja stöðu sína í samkeppninni við Hannes Þór Halldórsson um byrjunarliðssæti, með því að vera farinn að spila í frönsku 1. deildinni með liði Dijon þar sem hann er aðalmarkvörður. Það er einmitt hér í Frakklandi sem Rúnar Alex gæti spilað sinn fjórða landsleik, þegar Ísland mætir heimsmeisturunum í kvöld.

„Ég ferðaðist bara með lest hingað, sem er mjög einfaldur og góður ferðamáti sem vantar á Íslandi,“ segir Rúnar Alex léttur þegar ég hitti hann á hóteli landsliðsins. Eftir þessi skýru skilaboð til þeirra sem hafa með samgöngumál á Íslandi að gera ræðum við um byrjun tímabilsins hjá Dijon, en Rúnar Alex kom til félagsins frá Nordsjælland í sumar. Dijon vann fyrstu þrjá leiki sína í ágúst en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina og liðið aðeins náð í eitt stig í sex leikjum, í markalausu jafntefli við Reims.

„Mér persónulega hefur gengið ágætlega. Ég er búinn að vera mjög sáttur með mína frammistöðu í leikjunum. En ég get ekki bæði varið markið og skorað mörk fyrir okkur. Í síðustu sex leikjum höfum við samtals skorað eitt mark og það gerir okkur erfiðara fyrir að vinna leiki. Við höfum varist ágætlega, þó að við fáum á okkur talsvert af mörkum, en mörg þessara marka koma undir lok leikja þegar við erum að sækja. Ég held að við eigum helling inni og hef trú á að við komum bara sterkari til baka eftir þetta,“ segir Rúnar Alex.

Rúnar Alex hefur í viðtölum sýnt Hannesi tilhlýðilega virðingu, eftir frábæra frammistöðu hans og gullöld landsliðsins síðustu ár, og ekki farið fram með neinar fullyrðingar um að hann verðskuldi jafnvel tækifæri í byrjunarliðinu í mótsleik. En telur hann sig farinn að banka fast á dyrnar núna?

Sjá allt viðtalið við Rúnar Alex í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »