KSÍ fær 100 milljónir aukalega

Með framgöngu sinni undanfarin misseri hafa Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir ...
Með framgöngu sinni undanfarin misseri hafa Gylfi Þór Sigurðsson, Birkir Bjarnason og félagar í íslenska landsliðinu tryggt KSÍ háar fjárhæðir. mbl.is/Kristinn Magnúss.

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hefur ákveðið að hækka það fé sem þátttökuþjóðirnar í hinni nýju Þjóðadeild fá. Knattspyrnusamböndin sem eiga fulltrúa í A-deild, eins og Ísland, græða mest á keppninni.

Upphaflega áttu liðin sem leika í A-deild að fá 1,5 milljónir evra fyrir að taka þátt. Nú hefur verið ákveðið að hækka þá upphæð upp í 2,25 milljónir evra, eða 300 milljónir króna miðað við núverandi gengi. Hækkunin nemur 100 milljónum króna.

Einnig var ákveðið að hækka þær upphæðir sem liðin í neðri deildum fá en ekki eins mikið. Eftir hækkun fá liðin í B-deild 1,5 milljónir evra, liðin í C-deild fá 1,125 milljónir evra, og liðin í D-deild 750.000 evrur, eða þrefalt lægri upphæð en KSÍ.

Ísland á ekki lengur raunhæfa möguleika á efsta sæti í sínum riðli í A-deildinni, eftir stór töp gegn Sviss og Belgíu. Sigurvegarar hvers riðils í A-deildinni fá hins vegar aukalega 2,25 milljónir evra, sigurvegarar riðla í B-deild fá 1,5 milljónir evra, sigurvegarar í C-deild 1,125 milljónir og sigurvegarar í D-deild 750.000 evrur aukalega.

Liðin fjögur sem vinna sína riðla í A-deild fá svo enn hærri upphæðir því þau keppa í úrslitum Þjóðadeildarinnar næsta sumar. Sigurvegari mótsins fær samtals, þegar allt er talið, 10,5 milljónir evra eða 1,4 milljarða króna.

mbl.is