Pogba var eitthvað að rífa í hann

Steven N'Zonzi sækir að Jóhanni Berg Guðmundssyni í kvöld.
Steven N'Zonzi sækir að Jóhanni Berg Guðmundssyni í kvöld. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson var sáttur með spilamennsku íslenska landsliðsins í fótbolta í 2:2-jafnteflinu gegn heimsmeisturum Frakka í vináttuleik ytra í kvöld. Ísland komst í 2:0 í leiknum og segir Jóhann þá svekkjandi að vinna ekki leikinn. 

„Spilamennskan var fín en ef þú kemst í 2:0 þá viltu klára leikinn. Við náðum ekki að gera það í dag og það er svekkjandi hlutinn af þessu en þetta er töluvert betra en síðustu tveir leikir. Þegar við horfum til baka eftir nokkra daga eru þetta ansi góð úrslit.“

Frakkar styrktust töluvert með innkomu Kylian Mbappé í seinni hálfleik, í stöðunni 2:0 fyrir Ísland. 

„Það væri skrítið ef við værum með sömu breidd og þeir, þeir eru náttúrulega töluvert fjölmennari en við og með frábæra leikmenn. Mbappé kom inn á og hann er einn sá besti í heiminum. Við vissum hverjum við værum að fara að mæta og við vissum að þetta yrði erfitt.“

Rúnar Már Sigurjónsson tæklaði Mbappé hressilega undir lokin og urðu læti á varamannabekk Frakka í kjölfarið. Paul Pogba átti eitthvað ósagt við Rúnar og þá steig Jóhann Berg inn í. 

„Ég sá að hann var aleinn í hrúgunni á þeirra bekk og auðvitað er maður mættur til að hjálpa liðsfélaga sínum og ég gerði það. Pogba var eitthvað að rífa í hann, en ég tók í höndina á honum og sagði honum að sleppa. Þeir voru ekki sáttir við tæklinguna, enda var þetta alvörutækling,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson. 

mbl.is