Skrítið að segja að þetta sé svekkjandi

Alfreð í baráttunni við Presnel Kimpembe í kvöld.
Alfreð í baráttunni við Presnel Kimpembe í kvöld. AFP

„Þetta var flott frammistaða eiginlega allan leikinn,“ sagði Alfreð Finnbogason eftir 2:2-jafntefli íslenska landsliðsins í fótbolta gegn Frökkum á útivelli í kvöld. Íslenska liðið komst í 2:0 í síðari hálfleik og var staðan 1:0 í hálfleik. Alfreð vildi sjá Ísland skora fleiri mörk. 

„Við vorum klárlega betra liðið í fyrri hálfleik og við áttum að skora fleiri mörk. Það er skrítið að segja það, en það er svekkjandi að fara ekki með sigur af hólmi hér.“

Alfreð var að spila sinn fyrsta landsleik síðan á HM í Rússlandi vegna meiðsla. Hann saknaði þess að spila með landsliðinu. 

„Ég er búinn að sakna þess, ég viðurkenni það. það var mikilvægt fyrir mig að spila leiki áður en ég kom hingað. Það er góð rútína í þessu hjá okkur þegar við erum nánast með okkar sterkasta lið. Við vorum að senda skilaboð í kvöld þótt við höfum ekki sigrað.“

Framherjinn lagði upp fyrsta mark leiksins á Birki Bjarnason eftir baráttu við Presnel Kimpembe. Kimpembe vildi aukaspyrnu eftir atgang þeirra, en dómarinn dæmdi réttilega ekki neitt. 

„Hann var að bíða eftir aukaspyrnu á meðan hann hélt sinni stöðu. Ég snerti boltann og fer aðeins í hann, en þetta var ekki brot í mínum bókum, þótt varnarmenn í þessari stöðu fái brot í 90 prósent tilvika.“

Hann segir gott að svara neikvæðri umræðu á vellinum, með leikjum sem þessum. 

„Auðvitað eiga allir rétt á sinni skoðun og þegar illa gengur er eðlilegt að það sé talað illa um liðið. Það má hins vegar gefa þjálfurunum og nýja kerfinu smá tíma og það er best að svara því á vellinum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert