Sögðum Gylfa að setja boltann á nær

Kári Árnason sterkari í loftinu en Olivier Giroud.
Kári Árnason sterkari í loftinu en Olivier Giroud. AFP

„Þetta var mjög gott framan af en svo gerum við okkur seka um klaufaleg mistök og þeir skora heppnismark,“ sagði Kári Árnason, annar markaskorara íslenska landsliðsins í fótbolta í 2:2-jafnteflinu í vináttuleik við Frakka ytra í kvöld. 

Kári spilaði mjög vel í kvöld og var hann sáttur við frammistöðuna eftir tvo slaka leiki gegn Sviss og Belgíu. 

„Heilt yfir er þetta mjög jákvætt og það er gott að fá svona góða frammistöðu eftir tvö afhroð. Það er hægt að byggja á þessu og koma til baka. Við Raggi erum búnir að spila lengi saman og þetta er orðið náttúrulegt hjá okkur. Það er alltaf gaman að spila með landsliðinu.“

Kári skoraði markið sitt með góðum skalla eftir hornspyrnu og hrósaði hann Gylfa Þór Sigurðssyni, sem lagði upp markið, fyrir sinn þátt. 

„Við sögðum Gylfa að setja boltann á nær og hann gerði það fullkomlega. Það var lítið annað í stöðunni en að skalla þetta inn. Boltinn kemur alltaf þar sem maður biður um hann þegar Jói og Gylfi eru annars vegar. Þá þarf maður bara að losa sig við manninn og gera eitthvað við boltann.“

Margir bjuggust við að Kári væri hættur með landsliðinu eftir HM í Rússlandi, en hann á nóg eftir, miðað við frammistöðuna í kvöld. 

„Ég sagði við þá þegar ég var beðinn um að halda áfram að ég væri til í að aðlagast hvaða hlutverki sem er, engu að síður þá er ég hérna til að fá mínútur og það er undir þjálfurunum komið hvað ég spila. Ég er ekki að stressa mig á því,“ sagði Kári. 

mbl.is