Guðlaugur Victor lék tognaður

Guðlaugur Victor Pálsson missir af leiknum við Sviss á mánudag.
Guðlaugur Victor Pálsson missir af leiknum við Sviss á mánudag. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Victor Pálsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, lék meiddur síðustu mínúturnar gegn heimsmeisturum Frakklands í gærkvöld í 2:2-jafntefli liðanna í Guingamp.

Guðlaugur Victor kom inn á sem varamaður eftir 70 mínútna leik. Hann meiddist um það leyti sem venjulegum leiktíma var að ljúka en þá tognaði hann aftan í læri þar sem hann elti Kylian Mbappé. Ísland hafði klárað sínar skiptingar og lék Guðlaugur Victor allt til lokaflautsins.

Í samtali við mbl.is kvaðst Guðlaugur Victor eiga eftir að fara í skanna til að sjá betur hve alvarleg meiðslin eru en því má slá föstu að hann geti ekki spilað gegn Sviss í Þjóðadeildinni á mánudaginn. Ekki er ólíklegt að hann verði frá keppni næstu 2-3 vikurnar.

Rúnar Alex Rúnarsson og Birkir Már Sævarsson fóru einnig meiddir af velli í leiknum í gær en vonast báðir til að geta verið með á mánudaginn. Emil Hallfreðsson var ekki með í gær vegna meiðsla og Sverrir Ingi Ingason hefur verið veikur.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari kvaðst í samtali við mbl ekki reikna með því að kalla inn leikmann í stað Victors fyrir mánudaginn. Hann reiknar með því að aðrir leikmenn verði klárir í slaginn á mánudag. 

mbl.is