Geta haldið boltanum þangað til sólin sest

Kári Árnason og félagar svekktir eftir mark Sviss í kvöld.
Kári Árnason og félagar svekktir eftir mark Sviss í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrsta markið breytir þessum leik algjörlega. Þú mátt ekki fá á þig fyrsta markið í svona leik því þeir geta haldið boltanum þangað til sólin sest. Þeir byrja að halda boltanum eftir markið og gera það vel,“ sagði Kári Árnason, miðvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, eftir svekkjandi 2:1-tap fyrir Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld. 

Kári var að mörgu leyti mjög sáttur við frammistöðu íslenska liðsins í leiknum, þrátt fyrir tapið. 

„Maður vill ekki taka áhættu of snemma. Þeir teygja á okkur og þá skapast svæði fyrir Shaqiri svo lokum við því eftir seinna markið þegar við verðum að taka áhættu. Ég fer þá á Shaqiri og skil Ragga einan eftir með framherjann. Maður vill ekki þurfa að gera það, en við urðum að sækja mark og okkur tókst það. Svo sköpum við nógu mikið af færum til þess að gera eitthvað. Við gerðum það líka í fyrri hálfleik og ef við hefðum skorað fyrsta markið hefði leikurinn breyst.

Þetta eru tvö klaufaleg mörk sem við fáum á okkur. Þeir eru ekki að skapa mikið af færum. Við sköpum hættulegri færi á meðan þeir eiga varla skot á markið í fyrri hálfleik. Það var eitt skot í mig og í horn, en það var eina. Í seinni hálfleik þá vex þeim fiskur um hrygg þegar þeir skora.“

Vona að íslenska þjóðin gefi okkur ekki upp á bátinn

Kári segist ánægður með bætta spilamennsku íslenska liðsins á milli landsleikjahléa. 

„Auðvitað en við erum ekki að ná úrslitum eins og við gerðum. Liðin eru að bera virðingu fyrir okkur og vita fyrir hvað við stöndum. Engu að síður áttum við 18 skot og 10 af þeim á markið. Venjulega verða mörk úr færunum okkar. Það gekk ekki alveg í dag.“

„Við förum í alla leiki með þá trú að við getum unnið þá. Við höfum ekki verið að spila á móti neinum smáþjóðum upp á síðkastið. Þetta er Argentína, Nígería, Króatía, Sviss og Belgía. Þetta eru ekki lið sem Ísland á að valta yfir. Við gerum okkur grein fyrir því. Við erum að stilla saman strengi með nýja þjálfara og það eru margir leikmenn sem eru að stíga upp.“

Þrátt fyrir fall úr A-deild Þjóðadeildarinnar er Kári ekki af baki dottinn. 

„Ég vona að íslenska þjóðin gefi okkur ekki upp á bátinn. Það er nóg eftir af þessu. Ef við náum ekki fyrsta styrkleikaflokki, þá verðum við í öðrum og þá eru góðir möguleikar að komast á EM,“ sagði Kári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert