Súr stemning í klefanum

Arnór Ingvi Traustason í baráttunni við Michael Lang í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason í baráttunni við Michael Lang í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var súr stemning í klefanum eftir þennan leik. Við gáfum ekki mörg færi á okkur í þessum leik og þessi mörk sem þeir skora koma eftir mikið einbeitingarleysi af okkar hálfu,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Sviss í 2. riðli Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við óðum í færum seinni hálfleik og hefðum þess vegna getað skorað í fyrri hálfleik líka þannig að þessi úrslit eru frekar svekkjandi. Við vorum aðeins að klikka á þriðja helmingnum í kvöld, bæði einfaldar sendingar, og þá vorum við oft á tíðum ekki alveg að taka réttar ákvarðanir. Þetta einhvern veginn datt bara ekki fyrir okkur í kvöld.“

Íslenska liðið virkaði brotið eftir fyrsta markið sem liðið fékk á sig og strákarnir fóru að reyna erfiða hluti í kjölfarið. Arnór vill hins vegar ekki meina að það sé lítið sjálfstraust í liðinu.

„Það voru nokkrar sekúndur þar sem við missum fókus en ég vil ekki meina að það sé lítið sjálfstraust í liðinu. Við spiluðum vel á móti Frökkum og mest allan leikinn í kvöld spiluðum við vel þannig að við tökum það jákvæða með okkur úr þessum tveimur leikjum. Ég vil ekki segja of mikið um dómarann en það voru nokkrar ákvarðanatökur sem má setja út á en annars var hann allt í lagi,“ sagði Arnór Ingvi Traustason í samtali við mbl.is.

mbl.is