Þriðja tapið í Þjóðadeildinni

Biðin eftir sigri hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu lengist enn eftir 1:2 tap gegn Sviss  í A-deild Þjóðadeildar UEFA á Laugardalsvellinum í kvöld. Ísland hefur tapað öllum þremur leikjunum í keppninni, tveimur gegn Sviss og einum gegn Belgíu, og fellur niður í b-deild Þjóðadeildarinnar. 

Belgía og Sviss eru með 6 stig en Ísland er án stiga og á eftir að spila gegn Belgiu á útivelli. Sigurliðið í riðlinum fer í fjögurra liða úrslit um sigur í keppninni en neðsta liðið fellur í B-deild. Liðið sem endar í neðsta sæti á eftir sem áður möguleika á að komast í efsta styrkleikaflokk fyrir dráttinn í undanriðla EM 2020 ef það nær betri árangri en neðstu lið í tveimur öðrum riðlum A-deildarinnar.

Staðan að loknum fyrri hálfleik í kvöld var 0:0 og var fremur lítið um opnanir í fyrri hálfleik. Leikurin var í járnum og möguleiki á íslenskum sigri fyrir hendi. Gylfi átti góða skottilraun eftir hálftímaleik en Yvon Mvogo varði vel. Sá stóð fyrir sínu í marki Sviss en hann var að leika sinn fyrsta A-landsleik. Gylfi átti fjölmörg skot á markið í kvöld og Mvogo varði fimm eða sex sinnum ágæt skot frá Gylfa.

Því miður byrjuðu Svisslendingar mun betur í upphafi síðari hálfleiks og tóku forystuna á 52. mínútu þegar Haris Seferovic skallaði í netið af stuttu færi. Svisslendingar höfðu ágæt tök á leiknum lengi vel í síðari hálfleik og bættu við marki á 67. mínútu þegar Michael Lang skoraði af stuttu færi en þá galopnaði Sviss vörn Íslands. 

Glæsilegt mark Alfreðs Finnbogasonar á 81. mínútu hleypti hins vegar miklu lífi í leik okkar manna. Alfreð skoraði með skoti af tæplega 30 metra færi efst í hornið vinstra megin. Virkilega huggulegt hjá Alfreð sem er í þvílíku formi um þessar mundir eftir að hafa gert 4 mörk í tveimur leikjum í Þýskalandi. 

Skottilraunir Íslendinga dundu á svissnesku vörninni á lokakafla leiksins og nánast með ólíkindum að Svisslendingar hafi sloppið með skrekkinn. Íslendingar voru mjög nærri því að jafna oftar en einu sinni á lokakaflanum og í eitt skiptið björguðu Svisslendingar á marklínu þegar Alfreð fylgdi eftir skoti Gylfa sem einnig var varið.  Þegar íslensku leikmennirnir fengu sjálfstraust til að sækja þá urðu þeir stórhættulegir en það dugði ekki til í þetta skiptið.

Karlalandsliðið í knattspyrnu hefur þá leikið ellefu leiki í röð án sigurs en síðasti sigurinn kom gegn Indónesíu í janúar. Liðið hefur leikið fjóra leiki gegn firnasterkum andstæðingum undir stórn Eriks Hamrén og hefur tapað þremur en gert eitt jafntefli. 

Sviss virðist ekki henta íslenska liðinu vel. Liðin voru saman í riðli í undankeppni HM 2014 og þá sigraði Sviss 2:0 á Laugardalsvelli. Í leiknum í Sviss voru Svisslendingar komnir 4:1 yfir en Íslendingar náðu jafntefli 4:4 með þremur mörkum á lokakaflanum. Í síðasta mánuði mættust liðin ytra í Þjóðadeijldinn og Sviss sigraði 6:0.

Íslenska liðið var þó mun betra í kvöld en það var í St. Gallen í byrjun september eins og tölurnar gefa til kynna. Frammistaðan í síðustu þremur leikjum gegn Belgíu, Frakklandi og Sviss í kvöld hefur ekki verið sérlega slæm á heildina litið en liðið fær þó á sig fleiri mörk en oft hefur verið á undanförnum árum. 

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Ísland 1:2 Sviss opna loka
90. mín. Leik lokið Sviss sigraði 2:1. Íslendingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna.
mbl.is