Þurftu nokkrar mínútur í viðbót

Hólmar Örn Eyjólfsson og Antoine Griezmann í vináttuleik Frakka og …
Hólmar Örn Eyjólfsson og Antoine Griezmann í vináttuleik Frakka og Íslands í síðustu viku. AFP

„Ég er ósáttur með að tapa þessum leik. Við settum góða pressu á þá í seinni hálfleik og við áttum að fá eitthvað meira úr út þessum leik,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson, varnarmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á Laugardalsvelli í kvöld eftir 2:1-tap liðsins gegn Sviss í 2. riðli Þjóðadeildar UEFA.

„Við byrjuðum báða hálfleikana ekki nægilega vel. Það var langt á milli manna og það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Mörkin sem við fáum á okkur eru ódýr og það hefði verið auðvelt að koma í veg fyrir þau. Þegar að maður lendir 2:0-undir gegn jafngóðu liði og Sviss er erfitt að ætla sér að fá eitthvað úr úr leiknum. Við settum samt sem áður mikla pressa á þá undir restina og það var leiðinlegt að ná ekki að pota inn einu marki í viðbót eftir að Alfreð minnkar muninn.“

Hólmar var ósáttur með mörkin sem liðið fékk á sig í kvöld en hann spilaði sem hægri bakvörður í leiknum, staða sem hann er óvanur að spila, en hann spilar sem miðvörður hjá Levski Sofia í Búlgaríu. 

„Bæði mörkin koma eftir fyrirgjafir og við áttum einfaldlega að vera nær mönnunum okkar, svo einfalt er það. Mín tilfinning var sú að ef við hefðum fengið nokkrar mínútur í viðbót hefðum við jafnað. Sóknarleikurinn var heilt yfir góður og við sköpuðum okkur færi til þess að skora. Mér leið sjálfum vel í leiknum og það var gott að fá þennan leik á móti Frökkum til að undirbúa sig en þetta er vissulega staða sem ég er óvanur að spila,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson í samtali við mbl.is.

mbl.is