Hrikalega erfitt að enda mótið svona

Alfons Sampsted var skiljanlega súr í leikslok.
Alfons Sampsted var skiljanlega súr í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er hrikalega erfitt að enda mótið á þennan hátt. Við hefðum viljað gera betur en svona endaði þetta,“ sagði bakvörðurinn Alfons Sampsted í samtali við mbl.is eftir 7:2-tap íslenska U21 árs landsliðsins gegn Spánverjum í lokaleik liðsins í undankeppni EM sem fram fer á næsta ári. 

Þrátt fyrir stórt tap og sjö mörk fengin á sig, sá Alfons jákvæða punkta í leik íslenska liðsins og er hann spenntur fyrir komandi tímum hjá liðinu. 

„Spilamennskan hefði getað verið betri á öllum stöðum. Spánverjarnir eru með gríðarlega sterkt lið sem við áttum erfitt með að finna lausnir á í vörn og sókn. Við erum með ungt lið og það eru einhverjir ljósir punktar sem við getum tekið með okkur í næstu keppni. Við vinnum með þá og höldum áfram að bæta okkur.

Mér fannst jákvætt hversu þéttir við náðum að vera í seinni hálfleik, þrátt fyrir að fá á okkur nokkur mörk. Við erum nógu góðir á köflum og áttum nokkrar hættulegar sóknir á móti einu besta liði heims í þessum aldursflokki. Við hefðum í sjálfu sér getað skorað meira en að sama skapi fengið fleiri mörk á okkur.“

Alfons átti erfiða vakt í hægri bakverðinum og lenti hann oft á móti kantmanni og bakverði á sama tíma.

„Þeir tvöfalda mikið og það er alltaf erfitt að lenda einn á móti tveimur. Þetta var brekka ef ég segi eins og er. Þeir eru mjög góðir á boltanum og sérstaklega á gervigrasi. Ég læri af þessu sjálfur og bæti minn leik.“

Hann er heilt yfir nokkur ánægður með undankeppni íslenska liðsins, sem hafnaði í fjórða sæti riðilsins með þrjá sigra úr tíu leikjum og ellefu stig. 

„Ég er stoltur af strákunum. Við náðum í fullt af stigum og hefðum getað náð í fleiri í nokkrum leikjum. Við töpuðum grátlega á lokamínútunum oftar en einu sinni. Mér finnst framtíðin björt fyrir næsta ár og árið þar á eftir,“ sagði Alfons Sampsted. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert