Spánverjar númerum of stórir

Arnór Sigurðsson reynir skot að marki Spánverja í dag.
Arnór Sigurðsson reynir skot að marki Spánverja í dag. mbl.is/Hari

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri mætti ofjarli sínum er Spánverjar komu í heimsókn á Fylkisvöllinn og unnu 7:2. Íslenska liðið hafnar í fjórða sæti riðilsins, en Spánverjar voru búnir að vinna hann fyrir leik kvöldsins.

Spánverjar voru mun meira með boltann framan af, en illa gekk að skapa sér færi gegn þéttri miðju og vörn íslenska liðsins. Ísland reyndi að sækja hratt er tækifæri gáfust og komst Arnór Sigurðsson í góða stöðu á 20. mínútu en hann var felldur áður en hann náði að láta skotið ríða af. Rúmenskur dómari leiksins ákvað hins vegar ekki að dæma víti, þrátt fyrir augljóst brot.

Vont varð verra á 23. mínútu er Axel Óskar Andrésson var dæmdur brotlegur innan teigs og Mikel Oyarzabal skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. Mínútu síðar var staðan orðin 2:0 er Rafael Mir skoraði úr þröngu færi og staðan orðin erfið fyrir íslenska liðið.

Þriðja mark Spánverja kom 40. mínútu og var Mir aftur á ferðinni. Jón Dagur Þorsteinsson lagaði stöðuna fyrir Ísland strax í næstu sókn eftir fína sókn frá hægri. Hann tók þá frákastið eftir að Unai Simón í marki Spánverja varði skot frá Arnóri.

Spánverjar bættu hins vegar við fjórða markinu í blálok hálfleiksins er Hörður Ingi Gunnarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá vinstri og var staðan í hálfleik 4:1. Fimmta mark Spánverja kom eftir níu mínútur í seinni hálfleik. Carlos Soler lyfti þá boltanum af yfirvegun yfir Aron Snæ í markinu og í netið.

Ísland minnkaði muninn á ný fjórum mínútum síðar er Óttar Magnús Karlsson átti skot af löngu færi sem Unai Simón í marki Spánverja varði klaufalega inn í eigið mark og var staðan 5:2. Sú staða breyttist í 6:2 á 87. mínútu er varamaðurinn Borja Mayoral skoraði eftir baneitraða skyndisókn. Fabián Ruiz skoraði svo með skoti af löngu færi, þar sem Aron Snær átti að gera betur og breytti stöðunni í 7:2 og þar við sat. 

Ísland U21 2:7 Spánn U21 opna loka
90. mín. Leik lokið Spánverjar voru allt of sterkir fyrir íslenska liðið í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert