„Gríðarlega stoltur“

Jón Þór Hauksson svarar spurningum á blaðamannafundinum í dag. Frá …
Jón Þór Hauksson svarar spurningum á blaðamannafundinum í dag. Frá vinstri: Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður KSÍ, Ian Jeffs aðstoðarþjálfari, Jón og Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Hari

„Ég er gríðarlega stoltur yfir því að fá tækifæri til að vinna með þessum leikmönnum. Þetta er stórt starf og frábært lið. Fyrst og fremst þess vegna hafði ég strax áhuga á því að taka við starfinu,“ sagði Jón Þór Hauksson, nýráðinn landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, þegar mbl.is ræddi við hann í dag. 

Kvennalandsliðið hefur komist í lokakeppni EM þrjú skipti í röð, 2009, 2013 og 2017. Er Jón ekki að koma inn í umhverfi þar sem krafan er að komast á EM 2021? „Jú jú. Kröfurnar eru miklar í þessu starfi. Þróunin í íslenskri knattspyrnu hefur einfaldlega verið þannig undanfarin ári. Fyrir mig er það mikil áskorun og ég er bara spenntur fyrir því.“

Jón sóttist sjálfur eftir því að Ian Jeffs yrði honum til aðstoðar hjá landsliðinu en þeir hafa ekki unnið saman áður. „Já já ég lagði mikla áherslu á það og er spenntur fyrir okkar samstarfi. Jeffs er góður þjálfari og hefur sýnt það í sínu starfi úti í Vestmannaeyjum. Þar hefur hann þjálfað kvennaliðið undanfarin ár með góðum árangri og einnig komið að uppbyggingu knattspyrnunnar í Vestmannaeyjum. Hann hefur reynslu úr Pepsi-deild kvenna sem er mikilvægt fyrir mig því þaðan getur hann komið með innsýn sem ég hef kannski ekki. Fyrir mig er því jákvætt að fá Jeffs með mér,“ sagði Jón sem sjálfur hefur ekki þjálfað meistaraflokk kvenna fyrr en nú. 

Einnig er rætt við Jón í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert