Höfnuðu tilboði Spezia í Willum

Willum Þór Willumsson var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar.
Willum Þór Willumsson var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Knattspyrnudeild Breiðabliks hafnaði tilboði ítalska B-deildarfélagsins Spezia í Willum Þór Willumsson, leikmann Blika,  en þetta staðfesti Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, í samtali við mbl.is í morgun.

Willum, sem er tvítugur að árum, átti frábært tímabil með Breiðabliki í sumar þar sem hann skoraði sex mörk í 19 leikjum í úrvalsdeildinni. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar af leikmönnum deildarinnar en Blikar enduðu í 2. sæti úrvalsdeildarinnar í sumar.

Þá hafa lið á Norðurlöndunum einnig sýnt leikmanninum mikinn áhuga samkvæmt framkvæmdastjóra Breiðabliks. Sveinn Aron Guðjohnsen leikur með Spezia á Ítalíu en hann var leikmaður Breiðabliks áður en hann hélt út til Ítalíu.

Spezia leikur í ítölsku B-deildinni eins og áður hefur komið fram en liðið er í ellefta sæti deildarinnar með 13 stig eftir fyrstu 9 leiki sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert