Sigríður gerði langtímasamning og Jón ráðinn

Clara Sigurðardóttir og Sigríður Lára garðarsdóttir ásamt Jóni Ólafi Daníelssyni.
Clara Sigurðardóttir og Sigríður Lára garðarsdóttir ásamt Jóni Ólafi Daníelssyni. Ljósmynd/ÍBV

Eins og mbl.is greindi frá í gær skrifaði Sigríður Lára Garðarsdóttir undir nýjan samning við knattspyrnudeild ÍBV eftir stutta dvöl hjá Lillestrøm í Noregi þar sem hún varð norskur meistari. 

Samningurinn er til fjögurra ára og er það lengsti samningur í sögu kvennaliðs ÍBV. Sigríður mun einnig taka við fyrirliðabandinu hjá ÍBV. Hún hefur leikið með ÍBV allan sinn feril á Íslandi og á hún 164 leiki að baki fyrir félagið. Sigríður á svo 14 leiki fyrir A-landslið Íslands. 

ÍBV staðfesti svo í kvöld ráðningu Jóns Ólafs Daníelssonar sem næsta þjálfara liðsins. Hann tekur við af Ian Jeffs sem lét af störfum til að verða aðstoðarmaður Jóns Þórs Haukssonar hjá landsliðinu. Jón Ólafur þekkir afar vel til félagsins því hann stýrði kvennaliðinu frá 2007 til 2014. 

Penninn á lofti

Clara Sigurðardóttir skrifaði einnig undir samning við ÍBV en Clara hefur verið fastamaður í U17 ára landsliði Íslands. Clara hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 38 mörk og skorað þrjú mörk fyrir ÍBV á síðustu tveimur árum. 

Kristín Erna Sigurlásdóttir verður svo áfram í herbúðum félagsins. Hún skrifaði undir nýjan samning í dag. Hún hefur alla tíð leikið með ÍBV að undanskildu einu tímabili hjá Fylki. Hún á að baki 157 leiki fyrir ÍBV og hefur skorað í þeim 94 mörk, sem gerir hana að markahæsta leikmanni ÍBV frá upphafi. 

Shaneka Gordon og Júlíana Sveinsdóttir skrifuðu einnig undir samninga í dag. Gordon er búin að leika með ÍBV síðan 2012 en hún var á tíma að láni hjá ÍR. Hún meiddist illa árið 2015 og hefur lítið spilað síðan. Júlíana er búin að leika með ÍBV síðustu fjögur ár og á að baki 67 leiki með ÍBV. 

ÍBV gekk svo frá samningum við Sesselju Líf Valgeirsdóttur, Guðrúnu Báru Magnúsdóttur, Margréti Írisi Einarsdóttur, Díönu Helgu Guðjónsdóttur, Sóldísi Evu Gylfasóttur, Ingu Hönnu Bergsdóttur, Gyðnýju Geirsdóttur og Sigríði Sæland. 

Áður hafði ÍBV gert samninga við Cloe Lacasse, Caroline Van Slambrouck og McKenzie Grossman. Að sögn ÍBV mun félagið bæta við sig tveimur leikmönnum til viðbótar. 

Það er nóg að gera hjá forráðamönnum ÍBV.
Það er nóg að gera hjá forráðamönnum ÍBV. Ljósmynd/ÍBV
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert