Sigurvonir og framfarir

Arnór Sigurðsson
Arnór Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markmiðið er að ljúka árinu á sigri og halda áfram að taka skref til framfara. Eitthvað í þessa veruna var boðskapur Eriks Hamrén, landsliðsþjálfara í knattspyrnu karla, þegar hann tilkynnti í gær hvaða 25 knattspyrnumenn skipa síðasta landsliðshópinn sem Svíinn velur á þessu ári.

Framundan er lokaleikur íslenska landsliðsins í Þjóðadeild Evrópu, gegn hinu sterka belgíska landsliði í Brussel á fimmtudaginn. Fjórum dögum síðar leikur íslenska landsliðið við Katar í Eupen í austurhluta Belgíu, skammt frá landamærum Þýskalands.

Skagamaðurinn ungi, Arnór Sigurðsson, er eini nýliðinn í hópnum. Kom það ekki óvart að Arnór væri í hópnum. Hann hefur farið með himinskautum með rússneska liðinu CSKA Moskvu á undanförnum vikum. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson kemur inn í liðið í fyrsta sinn eftir að Hamrén tók við þjálfun. Aron Einar glímdi við meiðsli í haust og hefur ekki náð fullum styrk ennþá. Til að mynda mun hann aðeins leika með gegn Belgíu en sitja yfir á móti Katar en vera engu að síður í hópnum, mönnum til halds og trausts. Hjörtur Hermannsson og Eggert Gunnþór Jónsson bætast ennfremur við í fyrsta sinn í stjórnartíð Svíans en sex ár eru síðan Eggert lék síðast með landsliðinu.

Hamrén fór sér að engu óðslega þegar hann var spurður hvort yngri mennirnir, s.s. fyrrgreindur Arnór, fengju tækifæri í öðrum hvorum leiknum eða jafnvel báðum. „Ég gef ekki upp byrjunarliðið núna,“ sagði Svíinn ákveðinn.

Sjá umfjöllun um landsliðsvalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert