Aron mikilvægasti leikmaður okkar

Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkar bíður mjög krefjandi verkefni á fimmtudaginn enda eru Belgarnir með eitt besta landslið í heimi um þessar mundir,“ sagði landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason við mbl.is eftir fyrstu æfingu landsliðsins í Brussel í dag en Ísland mætir ógnarsterku liði Belgíu í Þjóðadeild UEFA á fimmtudagskvöldið.

„Er ekki allt hægt í fótbolta? Við gefumst ekki upp fyrir fram þótt skörð séu höggvin í okkar lið. Það hafa verið batamerki á liðinu í síðustu leikjum og nú verðum bara að reyna að byggja ofan á það og reyna að fá sem mest út úr þessum leik og helst góð úrslit.

„Það er auðvitað ansi mikil blóðtaka að missa Gylfa og Jóhann Berg, tvo af okkar mikilvægustu leikmönnum. En vonandi nýta þeir tækifæri sitt vel sem koma inn fyrir þá. Þegar Gylfi og Jói eru heilir þá spila þeir alla leiki en nú verðum bara að fylla skörð þeirra og reyna að gera það eins vel og við mögulega getum.

Góðu fréttirnar fyrir okkur eru að við fáum fyrirliðann til baka og hann er eflaust mjög hungraður í að spila landsleik á nýjan leik. Hann er mínu mati okkar mikilvægasti leikmaður og það sést best á þeim úrslitum þegar hann er með og ekki með. Það er frábært fyrir hópinn að fá hann til baka. Aron er góður karakter og mikilvægt að fá hann aftur inn á herbergið,“ sagði Rúrik.

Klár í hvaða hlutverk sem er

Rúrik er leikmaður þýska B-deildarliðsins Sandhausen og hefur spilað flesta leiki liðsins á tímabilinu en Sandhausen hefur ekki gengið sem skyldi og er í 15. sæti af 18 liðum í deildinni.

„Ég hef spilað alla leiki þegar ég hef verið heill heilsu og ég er alltaf að reyna að bæta mig. Hungrið er enn til staðar og ég ánægður þar sem ég er. Vonandi fæ ég að spila á móti Belgunum en ég hef alltaf sagt að þjálfararnir velja alltaf besta liðið. Ég verð bara að bíða og sjá. Ef ég byrja inni á þá verð ég klár í það og ef ég byrja á bekknum þá er ég klár í hvaða hlutverk sem er. En auðvitað vilja allir spila svona stórleiki.“

mbl.is