Guðjón og Haukur á leið í KA

Haukur Heiðar Hauksson er á leið í KA á nýjan ...
Haukur Heiðar Hauksson er á leið í KA á nýjan leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumennirnir Guðjón Pétur Lýðsson og Haukur Heiðar Hauksson eru á leið í KA en þetta herma heimildir mbl.is. Guðjón Pétur er 31 árs gamall miðjumaður sem hefur leikið með Val frá árinu 2016.

Samningur hans við Valsmenn rann út í október og hefur hann því verið að leita sér að nýju liði. Guðjón Pétur varð tvívegis Íslandsmeistari með Valsmönnum og einu sinni bikarmeistari en hann á að baki 179 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 44 mörk.

Þá er bakvörðurinn Haukur Heiðar Hauksson og heimleið og mun hann semja við KA en hann varð sænskur meistari með AIK um helgina. Haukur lék með KA í fjögur ár áður en hann samdi við KR en þaðan hélt hann út í atvinnumennsku árið 2015.

Haukur hefur spilað með AIK frá árinu 2015 en hann hefur ekki átt fast sæti í liðinu á þessari leiktíð. Hann var í íslenska landsliðshópnum sem fór alla leið í átta liða úrslit EM 2016 í Frakklandi en hann á 7 A-landsleiki að baki fyrir Ísland.

Guðjón Pétur Lýðsson er á leiðinni norður.
Guðjón Pétur Lýðsson er á leiðinni norður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is