Gylfi verður ekki með

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Belgíu og Katar vegna þeirra meiðsla sem hann varð fyrir í London í gær. 

KSÍ tilkynnti rétt í þessu að Gylfi sé kominn á sjúkralistann. Tíðindin koma ekki á óvart þar sem Gylfi var tæklaður illa í leik Chelsea og Everton og var auk þess látinn leika talsvert eftir atvikið. 

Ísland mætir Belgíu í Þjóðadeildinni á fimmtudaginn en Katar í vináttuleik á mánudaginn sem einnig verður í Belgíu. Tveir fastamenn sem valdir voru í hópinn eru úr leik vegna meiðsla en auk Gylfa getur Jóhann Berg Guðmundsson ekki leikið. Í hans stað var Andri Rúnar Bjarnason kallaður inn í hópinn. 

Þegar hópurinn var tilkynntur var jafnframt tekið fram að þeir Ragnar Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Jón Daði Böðvarsson, Rúnar Már Sigurjónsson, Björn Bergmann Sigurðarson og Hólmar Örn Eyjólfsson væru ekki leikfærir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert