Landsliðsfyrirliðinn mættur

Aron Einar á spjalli við Þorgrím Þráinsson á æfingu landsliðsins …
Aron Einar á spjalli við Þorgrím Þráinsson á æfingu landsliðsins í Brussel í morgun. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu var allt komið saman á æfingu í Brussel í morgun en Íslendingar mæta Belgum í lokaleik sínum í Þjóðadeild UEFA á fimmtudagskvöldið.

Það var ánægjulegt að sjá fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson vera kominn á móts við landsliðið á nýjan leik en hann hefur ekkert leikið með því síðan á HM í Rússlandi í júní.

Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén ræðir við leikmenn landsliðsins á æfingu þess …
Landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén ræðir við leikmenn landsliðsins á æfingu þess í Brussel í morgun. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Aron Einar tók því rólega á æfingunni en líkt og hjá Cardiff æfir hann lítið sem ekkert en nýtir alla sína krafta í leikina. Aron gekk nokkra hringi með Þorgrími Þráinssyni úr landsliðsnefndinni í byrjun æfingarnar þar sem þeir spjölluðu saman og fór greinilega vel á með þeim.

Birkir Már Sævarsson skokkaði með sjúkraþjálfaranum Friðriki Ellerti Jónssyni en bakvörðurinn sterki hefur verið að jafna sig af meiðslum og ólíklegt þykir að hann verði klár í slaginn gegn Belgunum á fimmtudagskvöldið. Hann gæti hins vegar tekið þátt í vináttuleiknum gegn Katar á mánudaginn.

Eins og áður hefur komið fram eru mikil forföll í íslenska landsliðinu en átta leikmenn eru á sjúkralistanum. Það eru þeir: Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Emil Hall­freðsson, Hólm­ar Örn Eyj­ólfs­son, Rún­ar Már Sig­ur­jóns­son, Jón Daði Böðvars­son, Björn Berg­mann Sig­urðar­son og Ragn­ar Sig­urðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert