30 þúsund miðar seldir

Íslenska landsliðið á æfingu á King Baudouin Stadium í morgun.
Íslenska landsliðið á æfingu á King Baudouin Stadium í morgun. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Knattspyrnusamband Belgíu er búið að selja 30 þúsund miða á viðureign Belga og Íslendinga í Þjóðadeild UEFA sem fram fer á King Baudouin Stadium í Brussel annað kvöld.

Um 400 íslenskir stuðningsmenn verða á leiknum en King Baudouin-leikvangurinn tekur rúmlega 50 þúsund áhorfendur.

Íslenska landsliðið er þegar þetta er skrifað á æfingu á keppnisvellinum. Allir þeir 22 leikmenn sem eru í hópnum taka þátt í æfingunni en Aron Elís Þrándarson er væntanlegur til móts við landsliðshópinn en hann var kallaður inn í hópinn eftir að Birkir Bjarnason heltist úr lestinni vegna meiðsla.

Enn ríkir óvissa með þátttöku Birkis Más Sævarssonar en hann skokkaði með sjúkraþjálfaranum Friðriki Ellerti Jónssyni á æfingunni.

Klukkan 11.15 að íslenskum tíma hefst blaðamannafundur íslenska landsliðsins þar sem landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén og landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sitja fyrir svörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert