Aldrei lent í svona á ferli mínum

Erik Hamrén og Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundinum í dag ...
Erik Hamrén og Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundinum í dag ásamt Ómari Smárasyni fjölmiðlafulltrúa. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

„Ég hef á rúmlega 30 ára ferli mínum sem þjálfari aldrei upplifað annað eins hvað meiðsli varðar,“ sagði Erik Hamrén, þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi í Brussel í morgun.

Hver leikmaðurinn á fætur öðrum hefur helst úr leik vegna meiðsla og i dag varð ljóst að Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson verða ekki með í leiknum gegn Belgum.

„Það er ekkert við þessu að gera,“ sagði Svíinn sem á enn eftir að stýra íslenska liðinu til sigurs frá því hann tók við landsliðinu í sumar.

„Leikurinn á móti Belgunum er mikil áskorun fyrir okkur. Belgar eru númer eitt í heiminum og eiga að vinna þennan leik. Við erum ekki búnir að vera nógu góðir en í síðustu leikjum hefur verið batamerki á leik liðsins. Ég kann vel við Þjóðadeildina og ég veit að leikmönnum þykir skemmtilegra að spila mótsleiki heldur en vináttuleiki,“ sagði Hamrén.

mbl.is