Ekki auðveldur leikur gegn Íslendingum

Roberto Martinez landsliðsþjálfari Belga.
Roberto Martinez landsliðsþjálfari Belga. mbl.is/Eggert

Michy Batshuayi framherji spænska liðsins Valencia verður í byrjunarliði Belga í leiknum gegn Íslendingum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu í Brussel annað kvöld.

Roberto Martinez landsliðsþjálfari Belga staðfesti þetta á fréttamannafundi í dag. Batshuayi er samningsbundinn Chelsea en var lánaður til Dortmund á síðustu leiktíð og er nú í láni hjá Valencia. Hann hefur skorað 10 mörk í 20 leikjum með belgíska landsliðinu.

„Hann hefur alltaf gert það gott með landsliðinu og við verðum að nota svona hæfileikaríkan leikmann,“ sagði Martinez en óvíst er með þátttöku Romelu Lukaku, framherja Manchester United, markahæsta leikmann belgíska landsliðsins frá upphafi, sem og Nacer Chadli, sem leikur með Mónakó. Báðir hafa þeir átt við meiðsli að stríða. Dennis Praet, leikmaður Sampdoria, verður hins vegar ekki með í leiknum annað kvöld.

„Ég held að þetta verði ekki auðveldur leikur á móti Íslendingum. Þeir töpuðu naumlega 2:1 fyrir Svisslendingum í síðasta leik þar sem þeir fengu tvö góð færi undir lok leiksins. Ísland er með marga góða unga leikmenn í sínum röðum,“ sagði Martinez.

Hann var spurður hvort hann ætli að spara einhverja leikmenn fyrir leikinn á móti Sviss á mánudaginn.

„Nei þú getur ekki spilað tvo leiki með algjörlega breyttu liði. Leikurinn á morgun er mikilvægur og með sigri á móti Íslandi gefur það okkur forskot á Sviss. Við munum nálgast þessa tvo leiki á sama hátt og við sjáum til hverjir eru ferskir til að spila,“ sagði Martinez en Belgar hafa unnið báða leiki sína í Þjóðadeildinni, 3:0 á móti Íslendingum og 2:1 gegn Svisslendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert