Hef aldrei verið betri

Aron Einar Gunnarsson á fundinum í dag.
Aron Einar Gunnarsson á fundinum í dag. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er mjög ánægður að vera kominn til baka í íslenska landsliðið á nýjan leik eftir meiðsli en mikið mun mæða á honum gegn frábæru liði Belga í Þjóðadeild UEFA í Brussel annað kvöld.

„Það er mjög góð tilfinning að vera kominn til baka. Það er mér mjög mikilvægt að vera mættur til leiks með strákunum á nýjan leik og hitta ykkur. Það er gaman að fá að mæta svona góðu liði eins og Belgarnir hafa á að skipa. Við vitum vel að þetta verður mjög erfiður leikur enda eru Belgarnir með frábærlega mannað lið.

Ég skynja enn mikið hungur í þessum hópi. Við viljum allir komast á stórmót aftur. Æfingarnar hér í Brussel hafa verið góðar og það hefur verið gaman að sjá til þessara ungu stráka sem eru að koma inn í hópinn og eru tilbúnir,“ sagði Aron Einar á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í dag eftir æfingu liðsins á leikvanginum sem leikurinn fer fram á annað kvöld.

Mikil meiðsli hafa herjað á íslenska liðið en níu leikmenn eru á sjúkralistanum auk þess sem Ragnar Sigurðsson tekur út leikbann. Aron var spurður hvort hugsanleg skýring á öllum þessum meiðslum væri sú að leikmenn hafi hugsanlega ekki fengið nægilega mikið frí eftir HM í Rússlandi í sumar.

„Það gætur verið partur af því en það er erfitt að segja til um það. Ég man ekki eftir svona miklum meiðslum og hjá lykilmönnum á sama tíma. En það þýðir ekkert fyrir okkur að vera að væla og skæla. Við verðum bara að standa saman. Ég er 100% klár og hef aldrei verið betri,“ sagði Aron.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert