Hef saknað strákanna

Eggert Gunnþór Jónsson á hóteli landsliðsins í Brussel í dag.
Eggert Gunnþór Jónsson á hóteli landsliðsins í Brussel í dag. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður danska úrvalsdeildarliðsins SönderjyskE, gæti leikið sinn fyrsta landsleik í sex ár þegar Íslendingar mæta Belgum í lokaleik sínum í Þjóðadeild UEFA í Brussel annað kvöld.

Erik Hamrén valdi Eggert Gunnþór í landsliðshópinn fyrir leikina gegn Belgíu og Katar en Eggert var síðast í landsliðshópnum fyrir fjórum árum síðan.

„Það er hrikalega gaman að vera kominn í landsliðshópinn á nýjan leik. Ég hef bæði saknað strákanna og að vera í landsliðinu. Það er virkilega gaman,“ sagði Eggert Gunnþór í samtali við mbl.is á hóteli landsliðsins í Brussel í dag en Eggert á að baki 19 leiki með íslenska landsliðinu. Hann hefur leikið 14 af 16 leikjum SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en liðið er í 5. sæti deildarinnar.

Spurður að því hvort hann hafi reiknað með að ferli hans með landsliðinu væri lokið sagði Eggert;

„Nei ég segi það ekki. Ég hef alltaf verið klár en aðalmálið var að spila með sínu félagsliði og standa mig vel. Ég kem inn í hópinn núna þar sem margir eru frá vegna meiðsla og vonandi næ ég að nýta þetta tækifæri vel. Ég hef misst af skemmtilegum tíma með landsliðinu og þeirri upplifun sem leikmennirnir hafa fengið með því að taka þátt í tveimur stórmótum í röð.

Gat ekki kvartað

Maður gat svo sem ekki verið mikið að kvarta þar sem liðinu gekk afar vel. Ég var ekkert að svekkja mig á því að vera ekki valinn en ég hef alltaf verið reiðubúinn að spila fyrir landsliðið. Mér persónulega hefur gengið vel með SönderjyskE og ég er fínu standi. Ég hef reynslu þótt langt sé liðið frá því ég spilaði með landsliðinu og ég verð klár í hvaða hlutverk sem ég fæ í þessum leikjum.

Þetta er gluggi fyrir menn að sýna sig og þeir verða að nýta tækifærið vel þeir sem fá það. Belgarnir eru með frábært lið en við erum búnir að fara vel yfir leik þeirra og vonandi getum við nýtt þeirra veikleika,“ sagði Eggert Gunnþór, sem er 30 ára gamall miðjumaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert